Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, sækist á ný eftir að leiða lista flokksins í alþingiskosningum. Þær fara fram haustið 2021 en landsþing Viðreisnar verður haldið í Silfurbergi í Hörpu þann 25. september.

Formannsskipti urðu í flokknum fyrir síðustu kosningar, haustið 2017, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við af Benedikt. Mikil óánægja hafði verið í flokknum vegna viðtals í Víglínunni þar sem Benedikt þótti hafa gert lítið úr málinu um uppreist æru, sem sprengdi fráfarandi ríkisstjórn. Benedikt leiddi hins vegar lista flokksins í Norðausturkjördæmi en hlaut aðeins rúm 2 prósent og náði ekki inn á þing.

Benedikt sneri aftur til ráðgjafarstarfa en hefur allan tímann starfað í stjórn flokksins. Spurður hvort hann hafi rætt þessa ákvörðun við aðra í forystu flokksins segir hann svo vera. Einnig að fólk hafi komið að máli við hann í ljósi komandi landsþings. Hann segir einnig að þetta hefði ekki átt að koma fólki á óvart. „Ég var búinn að segja þetta í fjölmiðlum fyrir tveimur árum síðan, ef ekki meira,“ segir hann.

Í yfirlýsingu segist Benedikt vilja leiða lista á suðvesturhorninu, en tiltekur Reykjavík ekki sérstaklega. Hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort Benedikt vilji skora Þorgerði, oddvita í Suðvesturkjördæmi, á hólm til formennsku. Benedikt segir hins vegar að hann og fleiri í flokknum líti á höfuðborgarsvæðið sem sama svæðið og formannsslagur hafi ekki falist í yfirlýsingunni. „Ég býð mig fram í stjórn áfram, eins og ég hef verið,“ segir hann. Í síðustu kosningum leiddu Hanna Katrín Friðriksson og Þorsteinn Víglundsson Reykjavíkurkjördæmin. Þorsteinn hefur nú haldið til annarra starfa og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er oddviti í Reykjavík norður.

Spurður hvers vegna hann vilji ekki leiða lista fyrir norðan á ný segir hann aðstæður aðrar í dag. „Ég var á þessum tíma formaður flokksins og taldi það vera sterkt að formaðurinn gæfi kost á sér í ólíklegasta kjördæmi landsins. En ég er ekki formaður lengur og mínar aðstæður hafa breyst,“ segir hann.

Benedikt segist ætla að berjast fyrir sömu málum og þeim sem Viðreisn var stofnuð út af. Svo sem að breyta landbúnaðarkerfinu til að hér geti verið verðlag og úrval eins og þekkist erlendis, að kvóta sé ekki úthlutað án þess að ríkið fái fyrir hann markaðsverð og að í landinu sé stöðug mynt fyrir neytendur og útflutningsaðila.

Hann telur einnig að umræðan um inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði í kortunum á næstu árum og að fylgið við aðild sé að aukast. „Við berjumst fyrir því að Ísland fái fulla aðild að Evrópusambandinu,“ segir Benedikt. „Við erum þar inni að stærstum hluta en höfum engan atkvæðisrétt. Mér finnst mjög einkennilegt að fólk telji betra að vera aðili að samtökum án þess að fá að ráða neinu. Þeim sem eru á móti Evrópusambandsaðild hefur á undanförnum árum tekist að villa mörgu góðu fólki sýn.“

Enginn hefur boðið sig fram gegn Þorgerði Katrínu til formennsku flokksins á landsþingi. Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði, hefur boðið sig fram til varaformanns, en Þorsteinn Víglundsson gegndi þeirri stöðu áður.