Hvítvínið Sancerre Domaine Franck Millet af árgangi 2021 hefur verið tekið úr sölu hérlendis því áttfætla fannst í einni flösku. Ekki kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg hvort áttfætlan umrædda hafi fundist hérlendis.

„Vínið er ekki hæft til neyslu þar sem aðskotahlutir geta verið í því,“ segir í tilkynningunni. „Viðskiptavinir sem keypt hafa vöruna eru beðnir um að neyta hennar ekki og farga eða skila til verslunarinnar þar sem hún var keypt,“ segir áfram

Ekki kemur fram í tilkynningunni hvers konar áttfætla hafi fundist í hvítvíninu en á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að nú séu þekktar rúmlega 75 þúsund tegundir af áttfætlum. Um eitt þúsund nýjar tegundir uppgötvist árlega. Fræðimenn telji tegundirnar jafnvel vera nærri einni milljón. Þannig að það er úr nógu að velja.

„Til áttfætlna teljast dýr sem eru með 4 pör af fótum og tvískiptan líkama. Þær skortir einnig fálmara og vængi. Til áttfætlna teljast köngulær (Araneae), áttfætlumaurar (Acari) eða mítlar, langfætlur (Opiliones), sporðdrekar (Scorpiones), drekar (Pseudoscorpiones), líkir sporðdrekum en hafa ekki hala með eiturbroddi,“ segir meðal annars á Vísindavefnum.

„Langflestar tegundir áttfætlna eru innan ættbálks köngulóa eða um 35 þúsund tegundir, en til áttfætlumaura eða mítla teljast um 30 þúsund tegundir. Eflaust er heildarfjöldi mítla margfalt hærri þar sem þeir eru smáir og urmull tegunda lifir á lítt þekktum svæðum í regnskógum heimsins,“ segir á Vísindavefnum.

Heimkaup og ÁTVR hafa selt Sancerre Domaine Franck Millet hér á landi.