Vigdís Ingvadóttir, Vigga, var förukona. Sem barn var hún bundin við rúmstokkinn á meðan bláfátækir foreldrar hennar unnu. Sagt var að hún hefði verið misnotuð sem ung kona, orðið þunguð og síðan misst fóstrið. Vigdís flakkaði á milli bæja í Mýrdalnum. Hún neitaði gjarnan að sitja með heimilisfólkinu, kaus frekar að borða afganga í einrúmi. Vigdís lést árið 1957. Fyrir utan takmarkaðar heimildir um hana, þá lifir minning hennar í hugum fólks sem man eftir henni úr barnæsku sinni.

Vigdís er ein fjölmargra förukvenna sem eru umfjöllunarefni Jaðarkvennasögu, nýrrar bókar Dalrúnar J. Eygerðardóttur sagnfræðings um föru- og einsetukonur í íslenska bændasamfélaginu.

Æskuminningar endurhugsaðar

Fyrri hluti bókarinnar snýr að förukonum á Íslandi. Þar koma meðal annars við sögu ítarleg skrif um sjö síðustu förukonur landsins. „Þær konur eru einstakt sögudæmi um förukonur Íslandssögunnar sem lítið er til af upplýsingum um.“ Til að verða sér úti um upplýsingar um förukonurnar sjö leitaði Dalrún til 25 einstaklinga sem mundu eftir þeim, en elsti viðmælandinn var 104 ára gömul kona.

Dalrún segir að hún eigi viðmælendum sínum mikið að þakka. „Minningar þeirra skipta sköpum. Í fyrsta lagi vegna þess að upplýsingar sem þannig fengust gerðu kleift að varðveita vitneskju um föru- og einsetukonur. Í öðru lagi er við slíka upplýsingaöflun hægt að fá fram upplýsingar sem oft skila sér ekki með öðrum hætti. Þannig geta viðmælendurnir rifjað upp minningar úr æsku og hugsað þær upp á nýtt, með hliðsjón af spurningum mínum.“

Dalrún vinnur nú að doktorsverkefni í sagnfræði þar sem hún fjallar um ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar. Bókin um föru- og einsetukonur á Íslandi var því eins konar hliðarverkefni, þótt hún sé yfir 400 blaðsíður.

Dalrún segir mikilvægt að taka tillit til allra þátta í heimildunum, þar á meðal hegðunar kvennanna. Fréttablaðið/Ernir

Ákveðið frelsi

„Það er tregafullt líf að vera förukona. Saga Vigdísar endurspeglar líf fjölmargra kvenna. Það var engin kona sem valdi sér beint þann lífsmáta að vera förukona. Þetta var ákveðinn flótti. Heimildir benda til þess að þær hafi mikið verið út af fyrir sig þegar að þær dvöldu á bæjum á flakki sínu. Og heimildir sýna að þær mynduðu ógjarnan náin tengsl við fólk. Það er þó rétt að benda á að sumar förukonur virðast hafa notið vel þeirra fjölbreyttu samskipta sem flakkið bauð þeim upp á.“

Förukonur og förukarlar hafa verið hluti af íslensku þjóðinni alla tíð en erfitt yrði að áætla hversu algengur sá lífsmáti var hverju sinni. Eitt af því sem Dalrún veltir fyrir sér í skrifum sínum er hvernig það kom til að þessar konur tóku upp þennan flökkulífsmáta. „Það lítur út fyrir að þær hafi með beinum hætti valið sér þá leið, en þarna enduðu þær samt sem áður af ýmsum ástæðum. Þessi lífsmáti bauð þeim konum upp á ákveðið frelsi. Förukonur komu helst úr röðum vinnukvenna en sú stétt stóð hvað verst í samfélaginu. Með förulíferninu sköpuðu þær sér frelsi meðal annars undan hefðbundnum þjónustuhlutverkum kvenna sem var ekki annað en þrælsvinna. En fyrir það frelsi þurftu þær að borga með erfiðu líferni förukonunnar.“

Ingunn Sveinsdóttir, einsetukona í Langadal, bjó í kofa við árbakka Blöndu. Hún lést árið 1993.

Engin úrræði

Dalrún undirstrikar hve mikilvægt það er að taka tillit til allra þátta sem koma fram í heimildum, þar með talið hegðunar kvennanna til dæmis með hliðsjón af andlegum veikindum og kynbundnu ofbeldi gegn þeim. Það voru engin sértæk úrræði fyrir fólk með geðsjúkdóma og önnur mikil hegðunarfrávik á þessum tíma, en flakk var vissulega ákveðið úrræði bændasamfélagsins gagnvart fólki sem svo var ástatt um. „Hjá mörgum förukonum var undirrót flakksins þroskaskerðing eða einhvers konar andleg vanlíðan, þunglyndi eða aðrir geðsjúkdómar. Þessar konur voru mjög eirðarlausar. Og það sem einkenndi þær meðal annars er að þær gátu almennt ekki unnið hefðbundin verk sem aðrir gátu unnið. Það eru fáir sem geta lýst þeim jafn vel og ljóðskáldið Ólína Andrésdóttir sem talaði um þær sem vængbrotna, áttavillta fugla.“

Það gátu hins vegar ekki allar konur farið á flakk, því stundum voru veikindi kvenna, sem voru upp á aðra komnar, það mikil að þær höfðu enga möguleika á að geta ástundað flakk. „Það voru heilmikil fræði að baki flakkinu. Það þurfti að þekkja inn á marga hluti sem þar komu við sögu, allt frá því hvaða leiðir væru bestar, hvaða bæi væri best að heimsækja heim og allt eftir því.“

Einar á ferð

Kynferðislegt ofbeldi var mjög falið á þessum tíma. „Sumum þessara kvenna var lýst svo að þær væru karlalegar í fasi og margar þeirra voru þekktar fyrir andúð sína á karlmönnum. Ein skýring þessa er að þær hafi með þessu móti verið að fyrirbyggja það að lenda í kynbundnu ofbeldi. Þær voru oft einar á ferð og ferðuðust víða,“ segir Dalrún. „Margar konur sem ég tala við í dag um förukonur spyrja mig hvort þær konur hafi þurft að sofa hjá bóndanum. Það er mjög lýsandi.“

Leyndardómur einsetunnar

Kemur þá að hinu viðfangsefni Dalrúnar, einsetukonum. „Einsetukonur voru oftast nær í algjörri einveru, auðvitað með undantekningum. Það eru mun minni heimildir til um þær.“

Margrét Gísladóttir, förukona á Austurlandi, hafði ákveðna sérstöðu þar sem hún hafði verið gift og átt fjögur börn áður en hún fór á flakk. Hún lést árið 1953.

Hvernig drógu þær fram lífið?

„Það er töluverður leyndardómur þar að baki. Þær lifðu almennt í gífurlegri fátækt. Algengar vangaveltur þeirra sem skráð hafa upplýsingar um einsetukonur taka til þess hvernig þær drógu fram lífið og hvernig þær vörðu tíma sínum. Hvaða augum einsetukonur litu eigið líf er minnst um vitað enda nær alger skortur á þeirra sjónarhorni í heimildum. Ætla verður að ef þær hefðu verið teknar tali þá hefðu þær vísast gert lítið úr þeirri einangrun sem líf þeirra markaðist svo mjög af.“

Einsetukonur hafa búið með ýmsum hætti á Íslandi. „Meðal annars stunduðu þær tómthúslíf og sjálfsþurftarbúskap. Svo eru það þær einsetukonur sem lifðu bænalífi á þjóðveldisöld sem búið er að rannsaka töluvert, til dæmis Guðrún Ósvífursdóttir. En konur úr þeim hópi voru iðulega hástéttarkonur. Í því skyni að fá sérfræðiálit úr þessari átt þá tók ég viðtal við Agnesi abbadís í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Þannig fékk ég innsýn í líf konu sem hefur tileinkað líf sitt Guði,“ segir Dalrún. „Agnes talaði mikið um köllun sína gagnvart Guði, köllun sem hefur samsvörun við þá köllun einsetukvenna sem lifðu bænalífi. Í bókinni fjalla ég um einsetukonur sem lifðu bænalífi með hliðsjón af húsmóðurhlutverkinu.“

Dalrún fjallar einnig um þá einsetu kvenna sem spratt upp af þvílíkri mannfælni að þær konur fóru nánast ekki út fyrir hússins dyr nema að bráða nauðsyn bæri til. Dæmi um slíka konu er Ingunn Sveinsdóttir sem Dalrún fjallar ítarlega um í bókinni, Ingunn bjó í torfbæ og síðar í kofa.

Leið aldrei undir lok

Tími förukvenna leið undir lok á sjöunda áratug 20. aldar en tími einsetukvenna leið hins vegar aldrei beinlínis undir lok. „Það er hægt að lifa einsetulífi í blokkaríbúð.“ Í lok bókar sinnar kemur Dalrún inn á jaðarkonur nútímans í þéttbýli. „Það hefur auðvitað gríðarlega margt breyst, því fram eru komin ýmis raunveruleg úrræði fyrir jaðarsetta einstaklinga. Konur eru sem fyrr hluti af jaðrinum. Undirrót vanda jaðarkvenna nútímans er að einhverju leyti að finna í sömu grunnþáttum sem leitt hafa konur á jaðarinn í gegnum aldirnar.

Bókin er tileinkuð konum Konukots, sem veitir heimilislausum jaðarkonum samtímans skjól. Hluti styrks sem fékkst til útgáfu bókarinnar rann til Konukots. Bókin er í opnu rafrænu aðgengi og hana er hægt að nálgast ókeypis í gegnum vefsíðu Dalrúnar: dalrun.net.