Samkvæmt bráðabirgðatölum Almannavarna og Embættis landslæknis greindust 139 manns með Covid-19 smit í gær, þar af þrír sem greindust á landamærunum.

Af þessum 139 manns voru 59 í sóttkví sem þýðir að meirihluti einstaklinga var ekki í sóttkví eða 80 manns.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavörnum.

Nú eru 1664 í einangrun og 2733 í sóttkví að því er fram kemur í tilkynningunni.

Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Landspítalans voru í gær 19 inniliggjandi vegna Covid-19, þrír á gjörgæslu en enginn í öndunarvél.

Nýjustu tölur verða uppfærðar á morgun.