„Undirtektirnar hafa verið viðunandi miðað við að ég lenti í vandræðum með heimasíðuna á laugardaginn og missti talsvert af fólki þar,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson sem efnir til vinnustofu á Íslandi milli jóla og nýárs.

Fyrir rúmum níu mánuðum voru græddir handleggir á Guðmund úti í Frakklandi þar sem hann býr. Handleggina missti hann í slysi fyrir 23 árum. Þá reynslu og nám sitt í markþjálfun hyggst hann nýta á námskeiðinu Innri styrk sem haldið verður á Grand Hóteli 27. desember. Er þetta fyrsta heimsókn Guðmundar til Íslands eftir aðgerðina.

Aðspurður kveðst Guðmundur geta tekið við áttatíu manns á vinnustofuna. Miðasalan er þegar hafin á vef hans gretarsson.is.

„Ég þurfti að skipta í snatri um hýsingaraðila og var síðan því ekki almennilega nothæf fyrr en seinnipart sunnudags. Ég er þó að vonast til að fá einhver tækifæri næstu vikurnar til að kynna þetta námskeið almennilega fyrir fólki og ég hef fulla trú á að fylla salinn,“ segir Guðmundur.

„Innri styrkur kemur þegar maður yfirstígur mótlæti en það eru ákveðin verkfæri og viðhorf sem geta flýtt fyrir svo fólk þarf ekki að vera handalaust í 23 ár til að geta nýtt sér þetta,“ sagði Guðmundur í viðtali í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag.

Um er að ræða heilsdags vinnustofu sem verður „óþægileg, skemmtileg og fræðandi“, eins og segir í auglýsingunni. „Siglum inn í nýtt ár með skýrari fókus, stærri sjóndeildarhring og umfram allt, betri sjálfsþekkingu,“ segir þar.

Erla Hlynsdóttir hefur fært sögu Guðmundar á bók og nefnist hún 11.000 volt. Stefnir hann að því í Íslandsheimsókninni að árita bókina fyrir þá sem vilja með fingrafari sínu.