Átta­hundruð Ís­lendinga hafa tekið þátt í mí­greni­s­erfða­rann­sókn á vegum Ólafs Árna Sveins­sonar, læknis á tauga­deild Land­spítala og í Lækna­setrinu í Mjódd og Ís­lenskrar erfða­greiningar. Ólafur stýrir rann­sókninni, sem kannar sam­bandið milli erfða­þátta og svörunar við nýtt mí­greni­lyf.

Hug­rún Hall­dórs­dóttir, fjöl­miðla­kona, hefur tekið þátt í rann­sókninni frá því í júní. Hún skrifaði færslu á Face­book um helgina þar sem hún sagði frá því að hún væri búin að vera laus við mí­greni í mánuð.

„Við mí­grenið hættum saman og nú fagna ég mánaðar­af­mæli. 30 dagar án heila­þoku. 30 dagar án verkja­lyfja! 30 dagar þar sem ég get setið eins lengi og ég vil!“ skrifaði Hug­rún.

Segir marga hafa já­kvæða upp­lifun af ferlinu

Rann­sóknin fer fram hjá Þjónustu­mið­stöð rann­sóknar­verk­efna, en að sögn Evu Sveins­dóttur, fram­kvæmda­stjóra mið­stöðvarinnar, er mark­mið rann­sóknarinnar að finna út af hverju þetta til­tekna lyf virkar á suma en ekki aðra.

„Þessi rann­sókn er svo­kallaður fasi fjögur, sem er rann­sókn sem er gerð eftir að lyf kemur á markað. Þetta lyf er komið á markað, en ekki hér á Ís­landi,“ segir Eva, og vísar þar til líf­tækni­lyfsins erenu­mab (Aimo­vig) sem kom á markað í Ameríku og Evrópu fyrir nokkrum árum. Að sögn Evu er þó skammur tími eftir af rann­sókninni.

„Við byrjuðum rétt áður en Co­vid skall á, en það áttu að vera 2000 manns, þúsund á Ís­landi og þúsund í Dan­mörku. Við enduðum á 800 á Ís­landi og 800 í Dan­mörku. Við erum með fólk sem er enn að klára ferlið, en rann­sóknin lokar í enda árs,“ segir Eva.

Eva segir að í gegnum ferlið hafi hún hitt fjölda þátt­tak­enda rann­sóknarinnar og hafi margir mjög já­kvæða upp­lifun af ferlinu í heild sinni.

„Það eru bara ó­trú­lega margar sögur sem við erum að heyra frá fólki, sem er bara að tala um nýtt líf, eins og hún gerði í Frétta­blaðinu,“ segir Eva, og vísar þar í um­fjöllun Frétta­blaðsins um Face­book færslu Hug­rúnu Hall­dórs­dóttur þar sem hún opnar sig um rann­sóknina og bata hennar í kjöl­farið.

Talið að um 50 þúsund Ís­lendingar þjáist af mí­greni

Í nóvember í fyrra birtist við­tal við Ólaf í Lækna­blaðinu, þar sem hann ræddi rann­sóknina og mí­greni al­mennt, sem hann sagði vera sjúk­dóm.

„Sumir fá köst einu sinni á ári, aðrir oft í mánuði. Sumir geta tekið töflu og haldið á­fram við iðju sína á meðan aðrir liggja kvaldir í rúminu með allt slökkt,“ sagði Ólafur í sam­tali við Lækna­blaðið. Þá kemur fram að talið sé að um 50 þúsund Ís­lendingar þjáist af mí­greni, eða um fimm­tán prósent þjóðarinnar.

Rann­sóknin tekur um sjö mánuði og er fyrsti mánuðinn án lyfja. Í Lækna­blaðinu sagði Ólafur að lyfið sem sé notað í rann­sókninni virki á þann hátt, að það hemji virkni próteinsins CGRP, sem sé eitt af lykil­próteinum í mein­gerð mí­grenis. Þá sé skil­yrði að þátt­tak­endur hafi verið með mí­greni í minnst fjóra daga í mánuði í þrjá mánuði áður en rann­sókn hófst.

„Allir fara á virkt lyf. Engin lyf­leysa er notuð en fyrsta mánuðinn er við­komandi ekki á lyfinu heldur skráir ein­göngu höfuð­verkja­daga,“ sagði Ólafur við Lækna­blaðið. Þá geti fólk fengið lyfið eftir rann­sóknina ef það upp­fylli skil­yrði fyrir greiðslu­þátt­töku, sem séu nokkuð ströng.

„Við­komandi þarf að vera með svo­kallað krónískt mí­greni sem felur í sér höfuð­verk að minnsta kosti fimm­tán daga mánaðarins og þar af þurfa að minnsta kosti átta að vera mí­greni. Auk þess þarf við­komandi að hafa prófað tvö önnur fyrir­byggjandi lyf án nægjan­legs árangurs,“ sagði Ólafur í sam­tali við Lækna­blaðið.