Klasasmit kom upp á höfuðborgarsvæðinu í gær en smitin eru rakin til klasasýkingar í búsetuúrræði Útlendingastofnunar á vegum félagsþjónustu Hafnarfjarðar.

Þau smituðu eru umsækjendur um alþjóðlega vernd sem dvelja í þjónustu Hafnarfjarðarbæjar í húsnæði með íbúðum fyrir fjölskyldur. Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson í samtali við Fréttablaðið.

Fyrsta smitið greindist á þriðjudag og annað á miðvikudag. Var því ákveðið að fara í skimun í úrræðinu og þá komu í ljós sex smit til viðbótar. Búið er að skima alla íbúa húsnæðisins. Samkvæmt Rögnvaldi eru nokkur fjöldi fólks í sóttkví vegna smitanna en hann gat ekki staðfest hversu margir. Smitrakning er enn í gangi. 

Hinir smituðu hafa verið fluttir í farsóttarhús í Reykjavík í samvinnu við almannavarnir en Hafnarfjarðarbær þjónustar þá sem dvelja í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útlendingastofnun.

Fréttablaðið hefur undanfarna daga greint frá aðstæðum hælisleitenda sem búa í húsnæði Útlendingastofnunar að Grensásvegi. Íbúar þar segjast óttast öryggi sitt, þar sem þröngt sé um íbúa og spritt og sápa af skornum skammti. Íbúar þar séu margir langveikir og hafi miklar áhyggjur af því að COVID-19 smit berist í húsið.

Útlendingastofnun hefur hinsvegar ítrekað sagt að aðbúnaður í húsinu sé viðeigandi. Að þar gisti einungis tveir saman í hverju herbergi. Þá sagði upplýsingafulltrúi að dvelji fleiri en tveir saman í herbergi, líkt og umfjöllun Fréttablaðsins leiddi í ljós, þá hafi íbúar sjálfir fært sig úr því herbergi sem þeim var úthlutað og inn til annarra.