Byssumenn skutu átta manns til bana og særðu þrjá til viðbótar þegar þeir réðust til inngöngu í afmælisveislu í borginni Gqeberha, áður Port-Elizabeth, í Suður-Afríku í gærkvöldi.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins, að því er segir í frétt Reuters, en lögregla leitar nú árásarmannanna. Ekki er vitað hvað árásarmönnunum gekk til.
Morðtíðni er ein sú hæsta í heiminum í Suður-Afríku, en um 20 þúsund morð eru framin í landinu á hverju ári. Íbúar Suður-Afríku eru um 60 milljónir.