Tveir af þremur ráðherrum Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Alfreðsdóttir verða í framboði í Reykjavík í næstu kosningum.

Sömu sögu er að segja af Vinstri grænum þar sem Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir leiða báða listana í borginni. Þriðji ráðherra VG, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, leiðir lista flokksins í Kraganum.

Í Sjálfstæðisflokknum vilja tveir ráðherrar leiða lista flokksins í Reykjavík: Þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, verður án efa efstur á lista flokksins í Kraganum.

Alls eru ellefu ráðherrar í ríkisstjórninni. Aðeins tveir þeirra sækjast eftir forystu á lista á landsbyggðinni. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. Kristján Þór Júlíusson hefur tilkynnt að hann verði ekki í kjöri fyrir næstu kosningar.

Listar Framsóknarflokksins í Reykjavík voru samþykktir á aukakjördæmaþingi flokksins í gærkvöldi.

Í Reykjavíkurkjördæmi norður munu þær Brynja Dan Gunnarsdóttir, áhrifavaldur og eigandi Extraloppunnar í Smáralind og Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara vera í forystu, ásamt Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra sem leiða mun listann.

Í Reykjavíkurkjördæmi suður leiðir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra listann, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, verkefnastjóri og formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur skipar 2. sæti og í 3. sæti er Sigrún Elsa Smáradóttir framkvæmdarstjóri Exclusive Travels og fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Frá ríkisstjórnarfundi á Bessastöðum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Framsóknarflokkurinn hefur átt erfitt uppdráttar í Reykjavík og þarf að hafa sig allan við til að fá menn kjörna í Reykjavík. Flokkurinn fékk ekki mann kjörinn í Reykjavíkurkjördæmi norður eftir síðustu kosningar og því óhætt að fullyrða að Ásmundur Einar leggi nú allt í sölurnar fyrir flokkinn.

Vinstri græn luku einnig í gær forvali sínu í efstu sæti á listum flokksins í Reykjavík. Efstar urðu Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins og forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Mest var spennan hins vegar um 2. sæti á listum flokksins, en sex gáfu kost á sér í það sæti. Steinunn Þóra Árnadóttir þingkona flokksins varði sína stöðu og verður aftur í 2. sæti á öðrum listanum og Orri Páll Jóhannsson, varaþingmaður og aðstoðarmaður umhverfisráðherra, mun skipa 2. sæti á hinum listanum. Orri Páll var í 3. sæti á lista fyrir síðustu kosningar á eftir Kolbeini Óttarssyni Proppé sem hætti við framboð í síðustu viku. Í 3. sæti verða þau Eva Dögg Davíðs­dóttir og Daníel E. Arnar­son.

Vinstri græn fengu tvo þingmenn kjörna í Reykjavík suður í síðustu kosningum og þrjá á lista forsætisráðherra í Reykjavík norður. Flokkurinn hefur dalað í könnunum miðað við síðustu kosningar og óvíst hvort hann nær fleiri mönnum á þing en ráðherrunum tveimur.

Forvali Vinstri grænna í efstu sæti á lista er nú lokið, en eftir er að staðfesta lista flokksins í Reykjavík. Aðrir flokkar sem lokið hafa vali á alla framboðslista eru Samfylkingin og Píratar.

Framsókn á aðeins eftir að kynna lista í Suðurkjördæmi þar sem formaður flokksins vermir án efa áfram oddvitasætið.

Viðreisn hefur lokið við að raða á lista í landsbyggðarkjördæmunum en á eftir listana í Reykjavík og Kraganum.

Engin mynd er enn komin á lista Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins en stillt verður á lista þessara flokka. Þá eru prófkjör fram undan í öllum kjördæmum hjá Sjálfstæðisflokknum.