Tæp átta prósent íslenskra kjósenda myndu kjósa Donald Trump, sitjandi forseta Bandaríkjanna gætu þeir kosið í forsetakosningum sem fara þar fram í nóvember. Tæp 82 prósent myndu kjósa Joe Biden, frambjóðanda Demókrata. Átta prósent vissu ekki hvað þau myndu kjósa og tæp þrjú prósent vildu ekki svara spurningunni. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið dagana 23. til 28. september.

Þeir sem tóku afstöðu.

Myndin sýnir aðeins svör þeirra sem tóku afstöðu og sögðust styðja annan hvorn frambjóðandann.

Evrópubúar alltaf líklegri til að styðja Demókrata

Þessar niðurstöður koma ekki á óvart að mati Eiríks Bergmann, prófessors í stjórnmálafræði.

„Íslendingar hafa alltaf fylgt Demókrataflokknum fremur en Repúblikönum, líkt og Evrópubúar almennt,“ segir Eiríkur en bætir þó við að vantraust í garð Trumps sé mun meira í Evrópu en áður hefur sést í garð forseta Repúblikana. „Það þarf að leita aftur til ástandsins í kringum George W. Bush við innrásina i Írak til að finna eitthvað í nálægð við þetta. En Bush var samt vinsælli en Trump.“

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Yfirgnæfandi Stuðningur við Joe Biden meðal Íslendinga kemur honum ekki á óvart.

Eiríkur bendir á að þótt íbúar Evrópu séu almennt meiri stuðningsmenn Demókrata, hafa forsetar bandaríkjanna líka mismikið persónufylgi. Persónufylgi bæði Obama og Clintons hafi aukið stuðning við flokkinn í Evrópu. Sama megi í raun segja um Ronald Reagan en í hans tíð nutu Repúblikanar mun meiri stuðnings en áður.

Kjósendur Miðflokksins eru hrifnastir af Trump

Eiríkur bendir á að þótt íbúar Evrópu séu almennt meiri stuðningsmenn Demókrata, hafa forsetar bandaríkjanna líka mismikið persónufylgi. Persónufylgi bæði Obama og Clintons hafi aukið stuðning við flokkinn í Evrópu. Sama megi í raun segja um Ronald Reagan en í hans tíð nutu Repúblikanar mun meiri stuðnings en áður.

Þá segir Eiríkur athyglisvert að sjá hve stór hluti kjósenda Miðflokksins styðji Trump, en samkvæmt könnuninni munar langminnstu á frambjóðendunum tveimur meðal kjósenda þess flokks. Um 55  prósent þeirra myndu kjósa Joe Biden en 45 prósent Donald Trump.

Biden fengi öll Framsóknaratkvæðin

Kjósendur Framsóknarflokksins hafa mjög ólíka skoðun á sviði bandarískra stjórnmála en hver einasti kjósandi flokksins sem svaraði spurningunni sagðist myndu kjósa Biden. Trump fengi ekkert Framsóknaratkvæði.

„Þetta segir mikla sögu og sýnir að það var raunverulegur munur á þeim sem fóru úr Framsókn og yfir í Miðflokkinn á sínum tíma,“ segir Eiríkur. Þetta bendi til þess að klofningurinn hafi verið efnislegur, ekki aðeins persónupólitískur.

Enginn stuðningsmanna Samfylkingar og Framsóknar sögðust myndu kjósa Donald Trump.

Jafnaðarmenn sýna fullkominn trúnað við Damókrata

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins myndu allir stuðningsmenn Samfylkingarinnar, líkt og kjósendur Framsóknar, allir kjósa frambjóðanda Demókrata. Fjögur prósent kjósenda Vinstri grænna og Viðreisnar sögðust myndu kjósa Trump en 96 prósent þeirra Biden. Litlu færri Píratar styðja Trump, eða þrjú prósent.

Á eftir Miðflokknum hefur Donald Trump mest fylgi meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins eða rúm 18 prósent. Tæp 82 prósent Sjálfstæðismanna myndu hins vegar kjósa frambjóðanda Demókrata að þessu sinni, hefðu þeir kosningarétt í Bandaríkjunum. Afstaða kjósenda Flokks fólksins er nánast á pari við kjósendur Sjálfstæðisflokkinn, 17 prósent kysu Trump en 83 prósent Biden.

Eiríkur segir fylgi við Trump í Sjálfstæðisflokknum ekki koma á óvart. „Við sjáum oft sömu klofningslínu í Sjálfstæðisflokknum í ýmsum málum, þar sem íhaldssamari og þjóðernissinnaðri hluti Sjálfstæðisflokks á stundum meira sameiginlegt með Miðflokki en sumum þeim frjálslyndari í eigin flokki,“ segir Eiríkur.  

Fjórtán prósent karla styðja Trump

Meðal þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni var töluverður munur eftir kyni en 14 prósent karla sögðust styðja Donald Trump en aðeins fjögur prósent kvenna.

Viðhorf eftir kyni

Mestur stuðningur við Trump er meðal fólks með iðnmenntun og framhaldsskólapróf en minnstur stuðningur er við hann meðal fólks með háskólapróf.

Fylgi við Donald Trump fer almennt vaxandi með aldri að frátöldum yngsta kjósendahópnum sem er líklegri til að kjósa Trump en fólk á fertugs og fimmtugsaldri. Mestur stuðningur við Trump er þó meðal Íslendinga yfir sextugu. Hann er þó ekki ýkja mikill en fimmtán prósent kjósenda 65 ára og eldri myndu kjósa Trump, hefðu þeir kosningarétt í bandarísku forsetakosningunum.

Viðhorf Íslendinga til frambjóðenda í bandarísku forsetakosningunum eftir aldri.

Ekki er marktækur munur á viðhorfum íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar til frambjóðendanna tveggja.

Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna og svartími var frá 23. til 28. september. Í hópnum voru 2500 einstaklingar á Íslandi, átján ára og eldri og voru svör þeirra vigtuð eftir kyni aldri og búsetu. Svarendur voru 1281 eða 51 prósent.

Evrópskir poppúlistar líklegri til að styðja Trump

Fyrir tveimur vikum birti Bandaríska hugveitan Pew Research Center, niðurstöður könnunar á stuðningi við Donald Trump í fjölda Evrópuríkja. Í umfjöllun á vef hugveitunnar kemur fram að viðhorf til Trumps eru jákvæðari meðal þeirra Evrópubúa sem styðja popúlíska flokka. Þannig hafi 45 prósent stuðningsmanna Vox á Spáni jákvæð viðhorf til Trumps en aðeins sjö prósent Spánverja sem ekki styðja Vox.

Meðal kjósenda Svíþjóðardemókrata nýtur Trump 33 prósenta fylgis, en meðal Svía sem styðja ekki Svíþjóðardemókrata nýtur hann 7 prósenta fylgis. Þá nýtur Trump 15 prósenta fylgis meðal stuðningsmanna Danska þjóðarflokksins en sjö prósenta fylgis meðal annara Dana.