Paul Hodg­kins, krana­maður frá Flórída, sem gekk um þing­sal öldunga­deildarinnar í Trump 2020 bol og með Trump fána hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir at­hæfi sitt.

Hann mun vera sá fyrsti sem hlýtur dóm eftir að stuðnings­menn Trumps, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, réðust inn í þing­húsið og gengu ber­serks­gang.

Hodg­kins játaði af­brot sín en hann var á­kærður fyrir að trufla þing­hald. Mál Hodg­kins er talið vera for­dæmis­gefandi og því lík­legt að aðrir sem réðust inn í þing­húsið til þess eins að valda usla hljóti svipaðan dóm.

„Þetta var heimsku­leg á­kvörðun hjá mér“

Hodg­kins sagði fyrir dómi að hann sæi eftir at­hæfi sínu og væri fullur af eftir­sjá.

Hann sagðist hafa farið frá Flórída til höfuð­borgarinnar til að styðja Trump og hafði ekki hug­mynd um að hópurinn myndi ryðjast inn í þing­húsið eftir á. Hann sagðist hafa verið upp­fullur af ást­ríðu og fylgt hópnum bara.

„Þetta var heimsku­leg á­kvörðun hjá mér og ég tek fulla á­byrgð á henni,“ sagði Hodg­kins.

Hogdkins átti yfir höfði sér allt að 21 mánaða fangelsis­dóm en dómarinn á­kvað að gefa honum vægari dóm þar sem hann var ekki á saka­skrá né tók hann þátt í neinu of­beldi meðan hann var inn í þing­húsinu, heldur gekk hann bara um.