Þrír göngugarpar hafa látist við tilraun til að klífa Mount Everest, hæsta fjall jarðar, á undanförnum dögum. Mikil ötröð hefur verið í kringum fjallstindinn þar sem fjöldi ævintýramanna freista þess að ná á toppinn meðan vel viðrar.

Greint var frá því fyrr í vikunni að athafnamennirnir og útrásarvíkingarnir fyrrverandi Bjarni Ármannsson og Lýður Guðmundsson komust í fámennan hóp Íslendinga sem náð þeim áfanga að klífa fjallið. Bjarni er núverandi forstjóri Icelandic Seafood International og fyrrverandi forstjóri Glitnis. Lýður er ásamt bróður sínum Ágústi kenndur við félagið Bakkavör. Komust þeir Bakkavararbræður á lista The Times yfir 1000 ríkustu íbúa Bretlandseyja á dögunum.

Allir þeir Íslendingar sem náð hafa toppi Everests hafa klifið það í maí, enda viðrar jafnan langbest til þess í mánuðinum. Örtröð myndaðist við fjallstindinn á dögunum þegar um 200 göngumenn biðu í röð til að komast á toppinn.

Greint er frá því í the Daily Mail að þrír göngumenn hafi látist í dag. Í heildina hafa átta manns látið lífið við tilraun sína til að klífa fjallið í vikunni. Örtröðin skapar hættuástand fyrir ofan hið svokallaða „Dauða-svæði“, en þar er mikil hætta á kuli og súrefni af skornum skammti.

Einn hinna látnu, 27 ára Indverji að nafni Nihal Bagwan, festist á umræddu Dauðasvæði í tólf klukkustundir. 381 leyfi hefur verið veitt til að klífa fjallið, en það er met.