Átta voru skotin til bana í Atlanta í höfuðborg Georgíuríkis í Bandaríkjunum í gærkvöld. BBC greinir frá.

Árásirnar voru gerðar á þremur asískum heilsulindum og er sami aðilinn, 21 árs gamall hvítur karlmaður, grunaður um þær allar.

Sex af átta fórnarlömbum morðingjans eru konur af asískum uppruna og er málið rannsakað sem hatursglæpur. Hatursglæpum og hótunum gegn fyrirtækjum í eigu fólks af asískum uppruna hefur fjölgað töluvert síðustu mánuði í Bandaríkjunum. Talið er að orðræða fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, hafi ýtt undir fordóma og hatur á fólki af asískum uppruna en hann kallaði kórónuveiruna lengi vel „Kínaveiruna“.

Fyrsta árásin var gerð um klukkan 17:00 að staðartíma á nuddstofu í Acworth í Cherokee sýslu. Samkvæmt lögreglunni á svæðinu létust tvö á vettvangi og þrjú voru fluttir á sjúkrahús, þar sem tvö þeirra létust af sárum sínum.

Tæpri klukkustund síðar var lögregla aftur kölluð til vegna árásar á annarri heilsulind þar sem þrjár konur voru skotnar til bana. Á sama tíma barst tilkynning um aðra árás í heilsulind hinum megin við götuna þar sem önnur kona fannst látin.

Lögreglu tókst að bera kennsl á skotmanninn í gegnum öryggismyndavélar heilsulindanna og fannst hann síðar um kvöldið eftir mikla leit. Maðurinn heitir Robert Aaron Long og er sem fyrr segir 21 árs gamall.