Nýskipuð stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis er í bága við nýsamþykkt ákvæði í þingsköpum þingsins um að hlutföll karla og kvenna séu eins jöfn og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka bjóða.

Í nefndinni sem kjörin var á þriðja og síðasta þingsetningarfundi Alþingis í dag sitja átta konur og einn karlmaður.

Þórunn Sveinbjarnardóttir var skipuð formaður nefndarinnar, Steinunn Þóra Árnadóttir varaformaður og Sigmar Guðmundsson annar varaformaður en hann er jafnframt eini karlmaðurinn í nefndinni.

Þær Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Berglind Rós Guðmundsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Ásthildur Lóa Þórsdóttir sitja einnig í nefndinni.

Ójafnvægi í utanríkismálanefnd

Það sama á við um utanríkismálanefnd, þar sitja sjö karlmenn og tvær konur sem er andstætt þingsköpum.

Bjarni Jónsson var kjörinn formaður nefndarinnar, Njáll Trausti Friðbertsson varamaður og Logi Einarsson annar varamaður.

Aðrir nefndarmenn eru Eyjólfur Ármannsson, Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður Katrín Gunnlaugsdóttir.

Ekki náðist í Birgi Ármannsson nýkjörinn forseta Alþingis við vinnslu fréttarinnar.

Uppfært klukkan 18:22.

Náðst hefur í Birgi sem segir meðal annars: „Þing­sköpin gera ráð fyrir því að geti verið frá­vik frá jöfnu hlut­falli kynjanna en þar sem er hægt að jafna þetta er auð­vitað æski­legast að það sé gert.“