Átta innanlandssmit greindust í gær og eru nú 80 í einangrun með virkt COVID-19 smit hér á landi.

Tveir einstaklingar greindust með jákvætt sýni við landamæraskimun og bíða þeir niðurstöðu úr mótefnamælingu. 670 eru nú í sóttkví og fjölgaði um 101 milli daga.

291 sýni var greint á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og 914 hjá Íslenskri erfðagreiningu. 2.035 sýni voru tekin við landamæraskimun. Öll innanlandssmitin greindust hjá Landspítala.

Nýgengi innanlandssmita, það er fjöldi nýgreindra smita síðustu 14 daga á hverja 100 þúsund íbúa, er nú 17,7 og hefur hækkað úr 15,5.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Alma D. Möller, landlæknir fara yfir stöðu mála og framgang faraldursins hér á landi, ásamt Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni á upplýsingafundi klukkan 14.

Fréttin hefur verið uppfærð.