Öfgakenndar hitabylgjur, þurrkar og hamfaraflóð hafa sett líf milljóna manna úr skorðum og kostað hundruð milljarða samkvæmt skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar um stöðu loftslagsmála á árinu sem er líða.

Merkin og áhrifin af loftslagsbreytingum eru að verða umfangsmeiri.

Yfirborð sjávar hækkar nú tvöfalt hraðar en það gerði á árinu 1993 og hefur hækkað um 10 millimetra frá því í janúar 2020 og er nú í methæðum. Hækkunin á síðustu tveimur og hálfu ári svarar til 10 prósenta þeirrar hækkunar sem orðið hefur í heild frá því mælingar í gegn um gervihnetti hófust fyrir nærri þrjátíu árum.

Loftslagsráðstefnan COP27 stendur nú yfir í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi og lýkur ekki fyrr en 18. nóvember. Þar ræða fulltrúar flestra þjóða heims hugsanlegar aðgerðir gegn þeirri hlýnun loftslags jarðar sem nú stefnir í með ógnvænlegum afleiðingum fyrir mannkynið allt.

Fréttablaðið/Graphic News