Á mánu­dag hefst aðal­með­ferð í stóru fjár­svika­máli gegn átta ein­stak­lingum í Héraðs­dómi Reykja­ness. Hin á­kærðu í málinu eru meðal annars sökuð um að hafa svikið fé út úr Á­byrgðar­sjóði launa. Málið teygir sig meira en ára­tug aftur í tímann.

Á­kæra var gefin út í málinu fyrir meira en ári. Sam­kvæmt Ás­mundu Björgu Baldurs­dóttur, sak­sóknara hjá héraðs­sak­sóknara, hefur málinu meðal annars verið frestað vegna Co­vid og af öðrum ó­fyrir­sjáan­legum or­sökum.

Meðal á­kærðu eru Eggert Skúli Jóhannes­son og sonur hans Jóhannes Gísli Eggerts­son, en hinn síðar­nefndi hefur hlotið nokkra dóma fyrir auðgunar­brot. Greint var frá því árið 2018 að þeir hefðu tekið yfir fjöl­miðilinn Frétta­tímann.

Einnig eru Hörður Alexander, bróðir Jóhannesar, og Halla Árna­dóttir, amma hans, á­kærð sem og Frið­finnur V. Hreins­son, Guð­laugur Her­manns­son, Gunnar Bender og Jóhann Ós­land Jósefs­son. Fólkið tengist annað­hvort ættar- eða fjöl­skyldu­böndum.

Þar sem margir koma að málinu er gert ráð fyrir að aðal­með­ferðin taki tvo daga, 12. og 13. septem­ber.

Meðal þess sem kemur fram í á­kærunni er að Eggert sé sakaður um að hafa blekkt starfs­menn Á­byrgðar­sjóðs launa til að sam­þykkja kröfu upp á rúm­lega 4,1 milljón króna. Hafi hann til­kynnt það sem van­goldin laun sín og Höllu hjá hinu gjald­þrota fé­lagi Skipa­miðlun árið 2008.

Einnig að Eggert hafi blekkt starfs­menn Á­byrgðar­sjóðs til að sam­þykkja kröfu upp á rúmar 2,8 milljónir vegna van­goldinna launa hins gjald­þrota Al­menna leigu­fé­lags árin 2012 og 2013.

„Blekkingar kærða Eggerts fólust í að vekja og hag­nýta sér þá röngu hug­mynd hjá starfs­mönnum á­byrgðar­sjóðs launa, að hann hefði verið laun­þegi Al­menna leigu­fé­lagsins,“ segir í á­kærunni.

Aðrir eru einnig sakaðir um að hafa beitt sömu að­ferð eða að­stoðað við svik. Til dæmis er Jóhannes Gísli sakaður um að hafa svikið út tæpar 2,9 milljónir vegna gjald­þrots fé­lagsins B400 árin 2013 til 2014.

Jóhann Ós­land var skráður stjórnar­for­maður Skipa­miðlunar, Al­menna leigu­fé­lagsins og B400 og er sakaður um að hafa búið til ráðningar­samninga.

Fleiri fé­lög koma við sögu og á­vallt sama að­ferðin. Meðal annars fyrir fé­lögin Alexöndru og K 100. Saman­lagt hljóðar upp­hæðin upp á tugi milljóna króna. Einnig er á­kært fyrir peninga­þvætti, það er fyrir að hafa veitt illa fengnu fé við­töku.