Átta manns hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir að tveir bílar skullu saman austan við Námaskarð í Mývatnssveit.

„Tveir bílar rákust saman. Þeir voru að mætast og lentu framan á hvor öðrum,“ segir varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri í samtali við Fréttablaðið.

Varðstjórinn staðfestir að tveir ökumenn og sex farþegar, alls átta manns, hafi verið fluttir á sjúkrahús. Fimm voru í öðrum bílnum og þrír í hinum.

Frá vettvangi.
Mynd: Marcin Kozaczek

„Þetta er háorkuslys þegar tveir bílar lenda svona saman,“ segir hann.

Rannsóknarvinnu lögreglu er lokið og er verið að ganga frá vettvangi og hleypa umferð í gegn í hollum. Lögreglan getur ekki gefið upp nánar upplýsingar um líðan farþeganna en varðstjórinn segir að það hafi farið betur en á horfðist.

Lögregla og slökkvilið á vettvangi. Umferð er hleypt í gegn í hollum.
Mynd: Marcin Kozaczek
Harður árekstur.
Mynd: Marcin Kozaczek