Átta ára banda­rísk stúlka lést eftir að hafa verið látin hoppa á trampólíni svo klukku­tímum skipti í miklum hita í Texas í Banda­ríkjunum. For­ráða­menn stúlkurnar vildu refsa stúlkunni fyrir ó­hlýðni og skipuðu henni því að hoppa sleitu­laust á meðan hún fékk hvorki vott né þurrt.

Í krufningar­skýrslu kemur fram að stúlkan, sem hét Jaylin, hafi látist úr of­þornun. Lög­regla segir for­ráða­menn stúlkunnar ekki hafa leyft henni að fá sér vatn þrátt fyrir þrúgandi hita. Þetta kemur fram í umfjöllun The Mirror um málið.

Veru­lega heitt var í veðri daginn sem Jaylin litla var látin taka út ó­mann­úð­lega refsingu sína en hiti mældist í kringum 37 gráður á svæðinu og allt að 43 gráður á trampólíninu að sögn lög­reglu.

Á­kærð fyrir morð

For­ráða­menn stúlkunnar þau Daniel Schwarz og Ashley Schwarz hafa verið á­kærð fyrir morð en þau voru hand­tekin síðast­liðinn mánu­dag eftir að dánar­or­sök kom í ljós.

Jaylin var úr­skurðuð látin á heimili Schwarz hjónanna þann 29. ágúst síðast­liðinn eftir að hringt hafði verið í neyðar­línuna.