Þýskri átta ára stúlku sem hafði verið frelsissvipt inni á heimili móður­for­eldra hennar nær alla hennar ævi, hefur verið frelsuð. Ein­angrun stúlkunnar hafði þau á­hrif á hana að hún gat varla gengið upp stiga. Stúlkunni hefur verið komið til fóstur­for­eldra.

The Guar­dian greinir frá því að stúlkan, Maria, hafi verið læst inni í her­bergi í húsi sem amma hennar og afi áttu en hún hafði ekki yfir­gefið her­bergið síðan hún var eins og hálfs árs gömul. Húsið sem stúlkunni var haldið í er í bænum Attendorn í vestur­hluta Þýska­lands, en þar búa um 25 þúsund manns.

Stúlkan var frelsuð 23. septem­ber síðast­liðinn en við læknis­skoðun fundust engin merki um van­næringu eða líkam­legt of­beldi, þetta kemur fram í yfir­lýsingu frá yfir­völdum á svæðinu. Við læknis­skoðunina sagðist stúlkan aldrei hafa séð skóg, né setið í bíl, meðal annars.

Pat­rick Baron von Grotthuss, sak­sóknari í máli stúlkunnar, sagði stúlkuna varla vera færa um að ganga upp stiga á eigin spýtur og ætti mjög erfitt með að ganga á ó­jöfnu yfir­borði.

Móðir stúlkunnar sleit sam­skiptum við faðir stúlkunnar þegar stúlkan var sex mánaða. Þá til­kynnti móðirin að þær væru fluttar saman til Ítalíu og heyrði hann ekki meira frá þeim.

Árið 2015 sagðist faðirinn oft hafa séð þær á vappi um bæinn og til­kynnti það til barna­verndar­yfir­valda, sem rann­sökuðu málið og yfir­heyrðu for­eldra móðurinnar, sem sögðu þær búa í Ítalíu. Það væri því engin sönnun fyrir öðru.

Það var ekki fyrr en í júlí á þessu ári þar sem lög­reglu var til­kynnt um mögu­legt of­beldi gegn barni. Par sem bú­sett er í Attendorn og tengist fjöl­skyldunni ekki neitt grunaði að eitt­hvað væri í gangi í móður­for­eldrunum, þau hefðu heyrt sögur af því að hjá þeim byggi barn.

Haft var þá sam­band við yfir­völd á Ítalíu, en þá kom í ljós að móðirin hafði aldrei búið þar sem hún sagðist ætla að búa á Ítalíu.

23. septem­ber var móðurinni skipað að af­henda barnið til barna­verndar, lög­regla fram­kvæmdi sama dag hús­leit þar sem stúlkan fannst og var færð í hendur fóstur­for­eldra sem tóku við henni.

Dóms­yfir­völd hafa hafið rann­sókn á málinu og er móðirin og móður­for­eldrar sökuð um frelsis­sviptingu.