Aranza Maria Ochoa Lopez, átta ára stúlka, fannst heil á húfi á dögunum, rúmum fjórum árum eftir að hún var numin á brott.

Móðir stúlkunnar nam hana á brott þegar hún fékk að hitta hana undir eftir­liti í verslunar­mið­stöð í borginni Vancou­ver í Was­hington-ríki dag einn í októ­ber 2018. Móðirin var hand­tekin í Mexíkó árið 2019 en Aranza fannst hins vegar hvergi.

Banda­ríska al­ríkis­lög­reglan, FBI, til­kynnti á mið­viku­dag að Aranza hefði fundist heil á húfi í Mexíkó. Full­trúar FBI hafa nú flutt stúlkuna til Banda­ríkjanna en al­ríkis­lög­reglan gefur ekki upp hvar hún er niður­komin.

Lopez hafði verið á fóstur­heimili frá árinu 2017 þegar hún var numin á brott rúmu ári síðar. Móðir hennar hafði verið sökum um of­beldi gegn henni og var svipt for­ræði af þeim sökum.

Í fréttum banda­rískra fjöl­miðla kemur fram að móðirin hafi beðið um að fara með stúlkuna á salerni verslunar­mið­stöðvarinnar. Tókst henni að koma stúlkunni út og í bif­reið sem hafði verið stolið áður en hún fór með hana til Mexíkó. Móðirin var sem fyrr segir hand­tekin árið 2019 og dæmd í 20 mánaða fangelsi fyrir ránið.