Héraðssaksóknari hefur ákært átta, sjö karla og eina konu, fyrir umfangsmikil svik úr Ábyrgðasjóði launa eftir gjaldþrot nokkurra fyrirtækja. RÚV greinir frá þessu og því að svikin nemi um 17 milljónum.

Fram kemur að málið hafi komið upp fyrir fimm árum en nái aftur til ársins 2009.

Svikin munu hafa farið þannig fram að einhverjir hinna ákærðu hafi blekkt Ábyrgðarstjóðinn með því að þykjast vera starfsmenn fyrirtækja sem lýst hafa verið gjaldþrota og þegið þannig laun úr sjóðinum. Ráðningarsamningar og launaseðlar hafi verið búnir til og upplýsingum svo komið til stéttarfélaga sem gert hafi kröfu fyrir hönd viðkomandi til sjóðsins.

Amma tveggja sakborninga einnig ákærð

Að því er fram kemur í frétt RÚV er konan sem ákærð er, móðir annars ákærðs í málinu og amma tveggja ákærðra karlmanna.

Í frétt RÚV er tekið dæmi um einn ákærða sem á að hafa blekkt bróður sinn til að taka við peningum sem sjóðurinn hafði lagt inn á reikning lögmannsstofu.

Í einu málinu vekur athygli að sakborningur er sagður hafa blekkt bróður sinn til að taka við peningum sem Ábyrgðasjóður launa hafði lagt inn á reikning lögmannsstofu. Mun hinn ákærði hafa sagt bróður sínum að um greiðslu vegna slyss væri að ræða en hann gæti ekki tekið við fénu sjálfur vegna gjaldþrotamáls.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness eftir réttarhlé.