Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur sett upp vefsíðu þar sem hann tekur á móti sögum af hótunum og spillingu á Íslandi. Hann segir þetta ekki vera á svipuðum nótum og sögurnar af kerfinu sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur óskað eftir frá almenningi.

„Nei, hann er frekar að leita að hraðahindrunum í kerfinu eða eitthvað svoleiðis,“ segir Björn Leví. „Þetta er frekar á þeim nótum að fólk fái viðvaranir um að tjá ekki stjórnmálaskoðanir sínar ellegar geti það misst vinnuna.“

Söfnunin hófst í gær og var hann nokkrum klukkutímum síðar kominn með á fjórða tug frásagna. „Ein þeirra er um ríkisstarfsmann sem gerði athugasemd við að áfengi hefði verið skráð sem matur á reikning. Eftir það missti hann af viðburði á vegum vinnunnar.“

Frásagnirnar eru allar nafnlausar, þarf heldur ekki að taka fram á hvaða vinnustað atvikið gerðist. Ekki er verið að ásaka einstaklinga heldur ná umfanginu. „Ég líki þessu við MeToo-sögusöfnunina, það var gert svo lítið úr því fyrir #MeToo hversu margir lentu í þannig atvikum en með því var hægt að sýna fram á umfangið. Þetta er bara til að fá fram umfangið,“ segir Björn Leví.

Söfnunin er aðgengileg á sites.google.com/view/sogurafspillingu