Nefnd um eftirlit með lögreglu telur vísbendingar um að fréttatilkynning lögreglu um meint sóttvarnabrot í Ásmundarsal síðastliðna Þorláksmessu hafi verið efnislega röng og ekkert tilefni hafi verið til upplýsingagjafar af slíku tagi.
Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um starfshætti lögreglu vegna afskipta af fólki á listsýningu í Ásmundarsal umræddan dag.
Dagbók lögreglu kom málinu af stað
Nefndin tók Ásmundarsalarmálið til skoðunar að eigin frumkvæði, vegna dagbókarfærslu lögreglu sem send var fjölmiðlum á aðfangadagsmorgun þar sem meðal annar sagði: „… á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“
Einnig barst kvörtun frá eigendum staðarins sem nefndin hafði til meðferðar samhliða athugun sinni.
Átt hafði verið við upptökur sem nefndin fékk afhentar
Í skýrslu nefndarinnar kemur meðal annars fram að nefndin hafi staðið frammi fyrir töluverðum erfiðleikum með að fá afhentar upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna af vettvangi í Ásmundarsal.
Nefndin óskaði eftir upplýsingum um málið með bréfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann 28. desember og bætti við þá beiðni þann 4. janúar ósk um afhendingu upptaka úr úr búkmyndavélum lögreglumanna. Embættið svaraði beiðninni 8. febrúar en afhenti ekki upptökurnar fyrr en 23. mars þegar gengið hafði verið eftir því.
Þegar nefndin hugðist taka málið til skoðunar kom hins vegar í ljós að afmáður hafði verið hluti af hljóði upptakanna og var óskað eftir því með tölvupósti að fá eintak af upptökum sem ekki hafði verið átt við. Í svari frá embætti lögreglustjórans kom fram að upptökurnar hefðu verið afhentar fyrir mistök en þá lágu fyrir fyrirmæli frá ákærusviði um að umræddar upptökur yrðu ekki afhentar með vísan til rannsóknarhagsmuna og sjálfstæðis ákæruvalds. Var nefndin því beðin að skila upptökunum en henni tjáð að þær yrðu sendar nefndinni eins fljótt og verða mætti.
Fékk nefndin að lokum réttar upptökur þann 14. apríl síðastliðinn og þá án þess að átt hafi verið við hljóðið.
„Hvernig yrði fréttatilkynningin... 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar..., er það of mikið eða?“
Háttsemi lögreglumanna kann að vera ámælisverð
Í skýrslu nefndarinnar er rakið samtal lögreglumanna á vettvangi. Þar má heyra á tal tveggja lögreglumanna:
Lögreglumaður 1. „Hvernig yrði fréttatilkynningin... 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar..., er það of mikið eða?“
Lögreglumaður 2: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það...“ og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálfstæðis...svona ... framapotarar eða þú veist.“
Þessa háttsemi lögreglumannanna á vettvangi telur nefndin geta verið ámælisverða og þess eðlis að tilefni sé til að senda þann þátt málsins til meðferðar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með vísan til 3. mgr. 35. gr. a í lögreglulögum. Í ákvæðinu segir að ef athugun hennar gefi tilefni til skuli nefndin senda viðkomandi embætti erindi til meðferðar, eftir atvikum í formi kæru.
Persónuvernd sá ekkert að færslunni
Eins og fram kemur hér að framan telur nefndin vísbendingar um að fréttatilkynning lögreglu um meint sóttvarnarbrot í Ásmundarsal síðastliðna Þorláksmessu hafa verið efnislega ranga og ekkert tilefni hafi verið til upplýsingagjafar af slíku tagi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu í kjölfar umfjöllunarinnar á aðfangadag um að misbrestur hafi orðið til þess að persónugreinanlegar upplýsingar hafi verið sendar úr dagbókinni.
Vert er að nefna að Persónuvernd taldi ekki tilefni til að aðhafast vegna dagbókarfærslunnar en Vigdís Eva Líndal, staðgengill forstjóri Persónuverndar, sagði að almennt njóti opinberar persónur minni friðhelgi en aðrar.
Dagbókarfærslan sem allt snýst um
Færslan sem kom öllu af stað var hluti af dagbók lögreglu sem send var fjölmiðlum að morgni aðfangadags. Hún var svohljóðandi:
„Lögregla var kölluð til vegna samkvæmis í sal í útleigu í miðbæ Reykjavíkur. Veitingarekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lokaður á þessum tíma. Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt. Lögreglumenn sáu aðeins 3 sprittbrúsa í salnum. Lögreglumenn ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út. Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista“.
Brot gegn grímuskyldu niðurstaða lögrelugrannsóknar
Þá sendu eigendur Ásmundarsalar frá sér tilkynningu nú síðdegis þar sem fram kemur að niðurstaða lögreglurannsóknar vegna litstýningarinnar á Þorláksmessu hafi leitt í ljós að ekki hafi verið brotið gegn reglum um fjöldatakmarkanir umrætt kvöld né reglum um opnunartíma.
Aðstandendum bjóðist til að ljúka máli vegna brots á grímuskyldu með sektargerð.