Nefnd um eftir­lit með lög­reglu telur vís­bendingar um að frétta­til­kynning lög­reglu um meint sótt­varna­brot í Ás­mundar­sal síðast­liðna Þor­láks­messu hafi verið efnis­lega röng og ekkert til­efni hafi verið til upp­lýsinga­gjafar af slíku tagi.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um starfs­hætti lög­reglu vegna af­skipta af fólki á list­sýningu í Ás­mundar­sal um­ræddan dag.

Dag­bók lög­reglu kom málinu af stað

Nefndin tók Ás­mundar­salar­málið til skoðunar að eigin frum­kvæði, vegna dag­bókar­færslu lög­reglu sem send var fjöl­miðlum á að­fanga­dags­morgun þar sem meðal annar sagði: „… á milli 40-50 gestir voru saman­komin í salnum, þar á meðal einn hátt­virtur ráð­herra í ríkis­stjórn Ís­lands.“
Einnig barst kvörtun frá eig­endum staðarins sem nefndin hafði til með­ferðar sam­hliða at­hugun sinni.

Átt hafði verið við upp­tökur sem nefndin fékk af­hentar

Í skýrslu nefndarinnar kemur meðal annars fram að nefndin hafi staðið frammi fyrir tölu­verðum erfið­leikum með að fá af­hentar upp­tökur úr búk­mynda­vélum lög­reglu­manna af vett­vangi í Ás­mundar­sal.

Nefndin óskaði eftir upp­lýsingum um málið með bréfi til lög­reglu­stjórans á höfuð­borgar­svæðinu þann 28. desember og bætti við þá beiðni þann 4. janúar ósk um af­hendingu upp­taka úr úr búk­mynda­vélum lög­reglu­manna. Em­bættið svaraði beiðninni 8. febrúar en af­henti ekki upp­tökurnar fyrr en 23. mars þegar gengið hafði verið eftir því.

Þegar nefndin hugðist taka málið til skoðunar kom hins vegar í ljós að af­máður hafði verið hluti af hljóði upp­takanna og var óskað eftir því með tölvu­pósti að fá ein­tak af upp­tökum sem ekki hafði verið átt við. Í svari frá em­bætti lög­reglu­stjórans kom fram að upp­tökurnar hefðu verið af­hentar fyrir mis­tök en þá lágu fyrir fyrir­mæli frá á­kæru­sviði um að um­ræddar upp­tökur yrðu ekki af­hentar með vísan til rann­sóknar­hags­muna og sjálf­stæðis á­kæru­valds. Var nefndin því beðin að skila upp­tökunum en henni tjáð að þær yrðu sendar nefndinni eins fljótt og verða mætti.

Fékk nefndin að lokum réttar upp­tökur þann 14. apríl síðast­liðinn og þá án þess að átt hafi verið við hljóðið.

„Hvernig yrði fréttatilkynningin... 40 manna einkasamkvæmi og þjóðþekktir einstaklingar..., er það of mikið eða?“

Háttsemi lögreglumanna kann að vera á­mælis­verð

Í skýrslu nefndarinnar er rakið sam­tal lög­reglu­manna á vett­vangi. Þar má heyra á tal tveggja lög­reglu­manna:

Lögreglumaður 1. „Hvernig yrði frétta­til­kynningin... 40 manna einka­sam­kvæmi og þjóð­þekktir ein­staklingar..., er það of mikið eða?“

Lögreglumaður 2: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það...“ og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálf­stæðis...svona ... frama­potarar eða þú veist.“

Þessa hátt­semi lög­reglu­mannanna á vett­vangi telur nefndin geta verið á­mælis­verða og þess eðlis að til­efni sé til að senda þann þátt málsins til með­ferðar hjá lög­reglu­stjóranum á höfuð­borgar­svæðinu með vísan til 3. mgr. 35. gr. a í lög­reglu­lögum. Í ákvæðinu segir að ef at­hugun hennar gefi til­efni til skuli nefndin senda við­komandi em­bætti erindi til með­ferðar, eftir at­vikum í formi kæru.

Per­sónu­vernd sá ekkert að færslunni

Eins og fram kemur hér að framan telur nefndin vís­bendingar um að frétta­til­kynning lög­reglu um meint sótt­varnar­brot í Ás­mundar­sal síðast­liðna Þor­láks­messu hafa verið efnis­lega ranga og ekkert til­efni hafi verið til upp­lýsinga­gjafar af slíku tagi.

Lög­reglan á höfuð­­borgar­­svæðinu sendi frá sér til­kynningu í kjöl­far um­fjöllunarinnar á að­fanga­dag um að mis­brestur hafi orðið til þess að per­­sónu­­greinan­­legar upp­­­lýsingar hafi verið sendar úr dag­­bókinni.

Vert er að nefna að Per­sónu­vernd taldi ekki til­efni til að að­hafast vegna dag­bókar­færslunnar en Vig­dís Eva Lín­dal, stað­gengill for­stjóri Per­sónu­verndar, sagði að al­mennt njóti opin­berar per­sónur minni frið­helgi en aðrar.

Dag­bókar­færslan sem allt snýst um

Færslan sem kom öllu af stað var hluti af dagbók lögreglu sem send var fjölmiðlum að morgni aðfangadags. Hún var svohljóðandi:


„Lög­regla var kölluð til vegna sam­kvæmis í sal í út­leigu í mið­bæ Reykja­víkur. Veitinga­rekstur er í salnum í flokki II og ætti því að vera lokaður á þessum tíma. Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru saman­komin í salnum, þar á meðal einn hátt­virtur ráð­herra í ríkis­stjórn Ís­lands. Tölu­verð ölvun var í sam­kvæminu og voru flestir gestanna með á­fengi við hönd. Lög­reglu­menn veittu at­hygli að enginn gestanna var með and­lits­grímur fyrir and­liti. Lög­reglu­menn sögðu að nánast hvergi voru fjar­lægðar­tak­mörk virt. Lög­reglu­menn sáu að­eins 3 spritt­brúsa í salnum. Lög­reglu­menn ræddu við á­byrgðar­menn skemmtunarinnar og þeim kynnt að skýrsla yrði rituð. Þá var gestum vísað út. Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp and­lits­grímu. Gestirnir kvöddust margir með faðm­lögum og ein­hverjir með kossum. Einn gestanna var ó­sáttur með af­skipti lög­reglu og líkti okkur við nas­ista“.

Brot gegn grímu­skyldu niður­staða lögrelu­g­rann­sóknar

Þá sendu eig­endur Ás­mundar­salar frá sér til­kynningu nú síð­degis þar sem fram kemur að niður­staða lög­reglu­rann­sóknar vegna lit­stýningarinnar á Þor­láks­messu hafi leitt í ljós að ekki hafi verið brotið gegn reglum um fjölda­tak­markanir um­rætt kvöld né reglum um opnunar­tíma.

Að­stand­endum bjóðist til að ljúka máli vegna brots á grímu­skyldu með sektar­gerð.