Annað jarðhitaverkefnið sem Reykjavík Geothermal kemur að í Eþíópíu er nú í startholunum. Róstusamt hefur verið í landinu vegna uppreisnar í Tigray-héraði. „Við höfum ekki áhyggjur af því að átökin hafi bein áhrif þar sem þau hafa ekki breiðst út um landið. Þetta er töluvert langt frá okkur,“ segir Guðmundur Þóroddsson, stjórnarformaður Reykjavík Geothermal. „En þegar það er órói fer athyglin mikið í það.“

Tigray-hérað er í norðvesturhluta Eþíópíu, við landamæri Erítreu, en jarðhitaverkefnin hafa verið mun sunnar, ekki langt frá höfuðborginni Addis Ababa.

Það verkefni sem nú er að fara í gang nefnist Corbetti, í Oromia-héraði, og er forvali á verktökum lokið. „Við erum nú í útboðsferli til að bora í Corbetti og erum að bíða eftir að fá tilboðin afhent. Við eigum von á því að fyrstu áfangarnir í verkefninu verði komnir í notkun eftir um það bil tvö ár,“ segir Guðmundur.

Sjö verktakar komust í gegnum forvalið, þar á meðal Íslenskar jarðboranir, og búist er við því að þeir skili tilboðum fyrir árslok. Sá verktaki sem verður fyrir valinu mun þá bora allt að þrjátíu holur til að finna jarðvarma.

Reykjavík Geothermal hefur starfað á svæðinu í átta ár og í vor greindi Fréttablaðið frá því að fyrirtækið væri aðili að raforkukaupasamningum við eþíópíska ríkið sem hlaupa á hundruðum milljarða króna. Eru virkjanirnar nefndar Tulu Moye og Corbetti. Í Austur-Afríku eru flekaskil og mikill óbeislaður jarðvarmi sem ríkin á svæðinu, svo sem Kenía, Tansanía og Eþíópía, horfa til að nýta.

Verkefnið í Tulu Moye, norðvestan við borgina Asella, er þegar komið af stað. Keníska orkufyrirtækið KenGen varð fyrir valinu við þær boranir. „Það hefur gengið ágætlega, þegar er búið að bora eina holu og byrjað á þeirri næstu,“ segir Guðmundur. KenGen hefur einnig sótt um að bora í Corbetti.

Aðspurður um hvort fleiri verkefni séu í farvatninu segir hann svo vera en að athyglin sé fyrst og fremst á þessi tvö verkefni núna. „Þriðja verkefnið sem er á döfinni er skemmra á veg komið. Það verður ennþá sunnar í landinu, nokkur hundruð kílómetrum sunnan við Addis Ababa.“