Fathi Baghasha, téður forsætisráðherra Líbíu, neyddist til að hörfa frá höfuðborginni Trípólí í morgun eftir átök milli stuðningsmanna hans og stuðningsmanna Abdul Hamid Dbeibah, sem einnig gerir tilkall til forsætisráðherrastólsins.

Baghasha var kjörinn forsætisráðherra af líbíska þinginu, sem hefur aðsetur í austurhluta landsins. Dbeibah var hins vegar útnefndur forsætisráðherra til bráðabirgða með milligöngu Sameinuðu þjóðanna í fyrra. Áætlað var að Dbeibah yrði forsætisráðherra fram að kosningum sem átti að halda í desember, en áætlanir um kosningarnar runnu út í sandinn vegna deilna milli líbískra stjórnmálamanna um það hvernig framkvæmd þeirra yrði háttað. Vonir stóðu til þess að kosningarnar myndu binda enda á sundrungarástand sem hefur ríkt í Líbíu í rúman áratug, frá því að Muammar Gaddafi var steypt af stóli með hjálp Atlantshafsbandalagsins árið 2011. Undanfarin ár hefur landinu verið skipt í tvennt milli stjórna í austur- og vesturhluta Líbíu.

Fathi Baghasha, sem nýtur stuðnings þingsins í norðurhluta Líbíu, lenti á flugvelli í Trípólí í morgun en hrökklaðist brátt til baka.
Mynd/EPA

Þar sem kosningarnar voru aldrei haldnar segir Dbeibah útnefningu sína á forsætisráðherrastól enn vera í gildi, en þingið í austurhluta Líbíu segja umboð hans hafa runnið út í desember, þegar kosningarnar áttu að eiga sér stað. Kjör Baghasa til forsætisráðherra var meðal annars studd af Khalifa Haftar, herforingja sem er talinn með voldugustu stríðsherrum Líbíu.

Baghasha, sem hafði setið í Sirte síðustu vikurnar, kom til Trípólí í gegnum Mitiga-flugvöllinn í nótt, en var fljótt rekinn burt eftir átök við stuðningsmenn Dbeibah.

„Í ljósi nýlegra tíðinda frá Trípólí legg ég áherslu á grundvallarnauðsyn þess að viðhalda friði á vettvangi og vernda óbreytta borgara,“ skrifaði Stephanie Williams, ráðgjafi António Guterres aðalritara Sameinuðu þjóðanna í málefnum Líbíu, í færslu á Twitter-síðu sinni „Ég hvet til meðalhófs og undirstrika algera nauðsyn þess að forðast ögrandi háttsemi, þar á meðal eldfima orðræðu, þátttöku í bardögum og vígbúnað liðsafla.“

„Það er ekki hægt að leysa úr ágreiningi með ofbeldi, heldur með samræðum og milligöngu. Til þess eru góðar stofnanir Sameinuðu þjóðanna enn opnar öllum fylkingum sem vilja hjálpa Líbíu að finna sanna leið fram á veg með samþykki allra í átt að stöðugleika og kosningum.“