Nokkur æsingur varð í dómsal í aðalmeðferð í máli Jóns Baldvins Hannibalssonar gegn Aldísi Schram og RÚV í dag.

Kolfinna Baldvinsdóttir, dóttir Jóns Baldvins, hafði nýlokið við að gefa skýrslu þegar Margrét Schram, mágkona Jóns Baldvins, var kölluð inn sem vitni.

Á sama tíma ætlaði Aldís Schram að víkja úr salnum um stundarsakir og mættust þá systurnar í dyragættinni. Aldís rakst í Kolfinnu sem féll og greip í hurðina í salnum.

Blaðamaður DV sem sat nálægt dyragættinni segir í frétt sinni að Aldís hafi sagt Kolfinnu vera viðbjóðslega. Í skýrslu Kolfinnu hafði hún sagt ásakanir gagnvart föður sínum eiga rætur að rekja til meintrar geðveiki Aldísar. Sagði hún Aldísi vera „Djöfullinn í mannsmynd“ og að hún hafi í nokkur skipti þurft að hafa afskipti af henni vegna geðrofs.

Eftir orðaskipti systranna rauk Kolfinna út úr salnum, en ekki áður en hún greip í hurðina og sagði: „Á ég að segja þér hvað þú ert?“

Voru þá fjölskyldumeðlimir Kolfinnu sem gripu í hana og ræddu við hana áður en hún yfirgaf salinn. Sagðist hún ekki getað verið í salnum lengur.

Jón Baldvin stefnir Aldísi Schram og RÚV vegna ummæla sem Aldís lét falla í viðtali við Sigmar Guðmundsson, í Morgunútvarpi Rásar 2 árið 2019.