Atli Rafn Sigurðar­son leikari hefur stefnt Kristínu Ey­steins­dóttur, leik­hús­stjóra Borgar­leik­hússins, og Leik­fé­lagi Reykja­víkur vegna upp­sagnar sinnar hjá Borgar­leik­húsinu, sem gerð var í kjöl­far á­sakana á hendur honum um kyn­ferðis­lega á­reitni. Hann fer fram á tíu milljónir króna í skaða­bætur og þrjár milljónir í miska­bætur. Málið verður þing­fest í Héraðs­dómi Reykja­víkur á morgun. 

Vísir greinir frá stefnunni. Atla Rafni var sagt upp störfum í desember 2017, eftir að leik­hús­stjóri var upp­lýstur um á­sakanirnar hendur Atla. Atli var fast­ráðinn í Þjóð­leik­húsinu á þessum tíma en færði sig tíma­bundið yfir í Borgar­leik­húsið til þess að taka þátt í upp­setningu Medeu, sem frum­sýna átti nokkrum vikum síðar, auk þess sem hann var með hlut­verk í Rocky Horror. Sýningunni var hins vegar frestað vegna upp­sagnarinnar. 

Í stefnunni segir að Atli Rafn hafi verið boðaður á fund með Kristínu Ey­steins­dóttur og Berg­lindi Ólafs­dóttur, fram­kvæmda­stjóra Borgar­leik­hússins, þar sem honum hafi verið af­hent upp­sagnar­bréf. Hann hafi á sama tíma verið upp­lýstur um á­sakanirnar, en þær ekki frekar skýrðar, hvers eðlis þær væru, frá hve mörgum þær kæmu eða frá hvaða tíma. Atli hafi komið af fjöllum. 

„Hann vissi hvorki þá, né veit í dag, til þess að hann hafi á­reitt neinn aðila, hvorki kyn­ferðis­lega né með öðrum hætti, hvorki þá ný­verið né í fyrri tíð. Hann vissi ekki til þess að hafa verið and­lag neinna „Me too“ sagna að undan­skilinni einni, sem lýtur að upp­lifun leik­konu á sam­skiptum við stefnanda, sem hann upp­lifði ekki með sama hætti. Ó­um­deilt er í málinu að sú saga var ekki afl­vaki upp­sagnarinnar,“ segir í stefnunni, en málið verður, sem fyrr segir, þing­fest á morgun.