Atli Rafn Sigurðsson leikari hefur stefnt Persónuvernd og gerir þá kröfu að úrskurður stofnunarinnar frá 15. október í fyrra verði felldur úr gildi. Málið hefur þegar verið þingfest. Atli Rafn kvartaði til Persónuverndar vegna synjunar Borgarleikhússins á beiðni hans um upplýsingar um efni og uppruna kvartana gagnvart honum sem fram komu í vinnuskjali leikhússtjóra Borgarleikhússins um kvartanir sem beindust að honum og urðu til þess að honum var vísað úr starfi.

Það var niðurstaða Persónuverndar að hlutaðeigandi einstaklingar yrðu ekki látnir sæta því að sá trúnaður sem þeim var heitið af hálfu leikhússtjóra yrði látinn víkja fyrir hagsmunum Atla Rafns og hefði henni því ekki verið skylt að veita honum umbeðnar upplýsingar.

Í byrjun mánaðarins fór fram aðalmeðferð í máli Atla Rafns gegn Borgarleikhúsinu, en hann fer fram á 13 milljónir í bætur vegna fyrirvaralausrar uppsagnar og miska í kjölfar hennar. Við aðalmeðferðina lagði lögmaður Atla Rafns áherslu á að það hafi gert skjólstæðingi sínum ómögulegt að verjast kvörtununum að vita hvorki hvers eðlis þær voru né hvaðan þær stöfuðu.

Dóms er að vænta í máli Atla gegn Borgarleikhúsinu á næstu dögum.