Hæsti­réttur hefur veitt Atla Rafni Sigurðar­syni heimild til að á­frýja dómi Lands­réttar í máli hans gegn Borgarleikhúsinu, eða Leikfélagi Reykjavíkur, til Hæsta­réttar. Dómurinn hafnar á sama tíma um leyfi til að á­frýja í máli hans gegn Kristínu Ey­steins­dóttir leik­hús­stjóra.

„Þannig að niður­staða Lands­réttar stendur því máli,“ segir lög­maður Atla Rafns, Einar Þór Sverris­son, í sam­tali við Frétta­blaðið og á þá um mál Atla gegn Kristínu.

Að­spurður hvort að þeir séu sáttir við þessa niður­stöðu segir Einar Þór að þetta sé það sem þeir óskuðu eftir.

„Við báðum auð­vitað um heimild líka til að á­frýja gegn Kristínu en stóra málið er að það hefur fengist leyfi til að á­frýja þessum dómi. Ég held að niður­staða Lands­réttar sé ekki rétt en það kemur í ljós,“ segir Einar Þór.

Í desember sýknaði Lands­réttur Borgar­leik­húsið og Kristínu Ey­­steins­dóttur leik­hús­­stjóra af kröfum Atla Rafns Sigurðs­­sonar, leikara en hann stefndi þeim árið 2017 vegna upp­sagnar hans í desember sama ár.

Í úr­skurði Hæsta­réttarer fjallað um ráðningu hans og að sam­eigin­legur þriggja mánaða upp­sagnar­frestur hafi verið á samningi hans en að í desember hafi samningi hans verið sagt upp en ekki vikið að á­stæðum upp­sagnarinnar. Á fundi sama dag var honum til­kynnt að á­stæða upp­sagnarinnar væru til­kynningar sem henni hefðu borist frá konum um kyn­ferðis­lega á­reitni hans. Kristín greindi Atla Rafni frá því hversu margar konur hefðu kvartað en vildi ekki greina frekar frá at­riðum kvartananna til að brjóta ekki trúnað við konurnar.

Hæstiréttur taldi ekki tilefni til að áfrýja í máli Atla gegn Kristínu og því stendur dómur Landsréttar hvað það varðar.

Reglugerð og handbók leikhússins

Mál Atla Rafns er byggð á því að í upp­sögn hans hafi ekki verið farið eftir reglum sem er kveðið á um í reglu­gerð um að­gerðir gegn ein­elti, kyn­ferðis­legri á­reitni, kyn­bundinni á­reitni og of­beldi á vinnu­stöðum og að ekki hafi verið farið eftir hand­bók starfs­fólks leik­hússins.

Héraðsdómur og Landréttur ekki sammála

Héraðs­dómur komst að þeirri niður­stöðu að leik­húsið hefði ekki farið eftir reglu­gerðinni og að upp­sögnin hefði verið ó­lög­mæt. Þá taldi héraðs­dómur að Kristín bæri jafn­framt á­byrgð á tjóni leyfis­beiðanda og var það reist á því að henni hefði mátt vera ljóst að að­gerðir hennar myndu hafa mikil á­hrif á orð­spor, starfs­heiður og um­tal um leyfis­beiðanda og með því valda honum tjóni.

Lands­réttur komst hins vegar að gagn­stæðri niður­stöðu og sýknaði leik­húsið, eins og fyrr segir.

Í dómi hans var lagt til grund­vallar að með­ferð málsins hefði ekki verið hagað á þann veg sem lýst væri í fyrr­nefndri reglu­gerð og hand­bók starfs­fólks Borgar­leik­hússins. Á hinn bóginn yrði ekki talið að sú máls­með­ferð sem þar væri kveðið á um væri ó­frá­víkjan­legt skil­yrði þess að grípa mætti til upp­sagnar á ráðningar­samningi. Þá var tekið fram að engin skylda hvíldi á vinnu­veit­endum öðrum en stjórn­völdum til að rann­saka at­vik sem gæfu til­efni til að upp­sagnar starfs­manns, gefa honum færi á að tjá sig eða gæta meðal­hófs við val á úr­ræðum. Var því talið að leik­húsinu hefði verið heimilt að segja Atla upp án þess að fylgja þeirri máls­með­ferð sem Atli vitnar til í hand­bók og í reglu­gerð.

Í beiðni sinni til hæsta­réttar segir að úr­slit málsins hafi veru­legt al­mennt gildi þar sem ekki hafi áður reynt á gildi reglu­gerðar nr. 1009/2015 fyrir dómi og að réttar­ó­vissa sé fyrir hendi um gildi og inn­tak hennar.

Héraðs­dómur hafi gengið leyfis­beiðanda í vil og einn lands­réttar­dómari talið að brotið hafi verið gegn hags­munum hans þannig að skil­yrði væri til að dæma honum miska­bætur.

Vegið að æru hans

Þá vísar Atli Rafn einnig til þess í beiðni sinni að málið varði mikil­væga hags­muni hans en á­kvörðunin um brott­rekstur hans hafi haft gríðar­lega mikil á­hrif fyrir hann. Með á­kvörðuninni hafi æra hans verið meidd til fram­tíðar og í­mynd hans sem at­vinnu­leikara beðið veru­legan hnekki.

Þá telur hann loks að dómur Lands­réttar sé rangur að efni til og vísar sér­stak­lega til þeirrar niður­stöðu að þær konur sem báru hann sökum hafi verið lofað nafn­leynd sem hafi verið ó­heimilt. Það sama eigi við niður­stöðu að sam­kvæmt reglu­gerðinni sé ekki komið í veg fyrir upp­sögn án máls­með­ferðar eftir að slíkar á­sakanir eru komnar fram.

„Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft for­dæmis­gildi um réttindi og skyldur starfs­manns og vinnu­veitanda á al­mennum vinnu­markaði þegar reynir á upp­sögn starfs­manns sem borinn hefur verið sökum af því tagi sem reynir á í málinu,“ segir í dóminum og af þeim á­stæðum fær hann heimild til að á­frýja til hæsta­réttar í máli gegn Borgar­leik­húsinu.

Hvað varðar málið gegn Kristínu er ekki talið að það hafi veru­legt al­mennt gildi um­fram dóms­úr­lausnir sem þegar hafa gengið né varði sér­stak­lega mikil­væga hags­muni leyfis­beiðanda. Þá segir að lokum að þau sjái ekki að dómur Land­réttar sé rangur hvað hana varðar og því er beiðninni hafnað.