Blaðamaðurinn Atli Már Gylfsaon var í Landsrétti í dag dæmdur til að greiða Guðmundi Spartakusi Ómarssyni 1,2 milljónir króna í miskabætur fyrir 23 ummæli sem birtust í grein eftir Atla Má í fjölmiðlinum Stundinni. 

Landsréttur sneri þar með við dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem sýknaði Atla Má fyrir ummælin í fyrra. Atli var líka dæmdur til að greiða 2,4 milljónir í málskostnað fyrir héraði og Landsrétti.

Guðmundur Spartakus krafðist ómerkingar á 30 ummælum. 23 þeirra dæmir Landsréttur í dag dauð og ómerk. Fram kemur að hin sjö væru endursögn á ummælum sem birst höfðu í öðrum fjölmiðlum. Greinin fjallaði um hvar Friðriks Kristjánssonar en hún birtist 1. desember 2016.

Í dómsorði segir að birta skuli forsendur og dómsorð dómsins innan 14 daga í Stundinni og á vefmiðlinum stundin.is.

Í dómnum segir að Atli Már hafi með grein sinni borið Guðmund Spartakus þungum sökum  um alvarlegan og svívirðilegan glæp sem varði að lögum ævilangu fangelsi. „Lægi ekkert fyrir um að G(uðmundur) hefði verið kærður fyrir hið ætlaða brot, hvað þá að ákæra hefði verið gefin út og dómur fallið. Engin gögn eða upplýsingar í ´malinu styddu fullyrðingar Atla Más Gylfasonar, heldur væri þar eingöngu vísað til nafnlauss heimildarmanns.“

Í dómsorði segir að allur gjafsóknarkostnaður fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþókun lögmanns hans, 1,2 milljónir króna. Atli situr hins vegar uppi með þær bætur sem hann er dæmdur til að greiða.