Landsréttur synjaði Atla Helgasyni í dag um endurheimt lögmannsréttinda sinna. Þannig var úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í maí snúið við, þar sem Atla var heimilað að flytja mál fyrir dómi. Atli getur ekki kært dóminn til Hæstaréttar.

Atli var sviptur lögmannsréttindum sínum eftir að hann réði Einari Erni Birgissyni bana árið 2000, og hlaut fyrir það sextán ára fangelsisdóm. Atli hlaut uppreist æru árið 2015 og ári síðar lagði hann fram beiðni um endurheimt réttinda sinna. Hann dró þá beiðni hins vegar til baka eftir fjölmiðlaumfjöllun. Hann óskaði svo aftur eftir þeim í ár. Héraðsdómur tók kröfu Atla til greina, en ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum til Landsréttar með fyrrnefndri niðurstöðu. 

Sjá einnig: Lögmannafélagið gekk of langt í máli Atla

Fram kemur í dómi Landsréttar að þrátt fyrir að 17 ár séu liðin frá því að dómur féll í manndrápsmálinu, sjö ár frá því að Atla var veitt reynslulausn, og þrjú ár frá því að reynslutíma lauk, sé enn varhugavert að slá því föstu að Atli hafi áunnið sér það traust sem lögmenn verði að njóta. Þá hafi brot hans verið það stórfellt að hann kunni að hafa firrt sig trausti almennings. 

Dómurinn vísar einnig til rökstuðnings Lögmannafélags Íslands, sem áður hafði synjað beiðni Atla um réttindin, þess efnis að Atli hafi gerst sekur um manndráp í tilefni deilna um fjárhagsmálefni, ekki gætt að reglum um fjárvörslu lögmanna á fyrri tíð og veitt ónógar upplýsingar um fjárhag sinn. Héraðsdómur Reykjavíkur komst hins vegar í maí að þeirri niðurstöðu að Lögmannafélagið hefði farið út fyrir lagaskyldu sína í málinu og að félaginu hafi ekki verið heimilt að rannsaka hagi Atla með þessum hætti. Synjun LMFÍ hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Héraðsdómur og Landsréttur eru á öndverðum meiði í niðurstöðum sínum; undirréttur segir að þrátt fyrir að brot Atla hafi verið svívirðilegt hafi hann afplánað sína refsingu og því sé eðlilegt að verða við kröfu um endurheimt réttinda, á meðan Landsréttur segir Atla ekki þess verðan að njóta leyfis eða löggildingar.