„Það gerðist ekki neitt. Ekkert drama — mér fannst einfaldlega orðið tímabært að finna mér eitthvað annað að gera,“ segir Atli Fannar Bjarkason, stofnandi og ritstjóri Nútímans. 

Atli Fannar hefur nú selt fjölmiðilinn og lætur af störum í lok mánaðarins, eftir fjögurra ára starf. Hann segir í samtali við Fréttablaðið að þessi fjögur ár hafi verið gífurlega erfið en „gjörsamlega frábær“ í senn. „Það er svolítið síðan mig fór að langa til að breyta til. Haustið er ágætis tímapunktur til þess. Samt pínu leiðinlegt hvernig salan á CCP skyggir á sölu Nútímans. Minnir að söluverðið hafi samt verið svipað,“ segir Atli og hlær.

Hann segist hafa tekið fæðingarorlof í sumar og þá kúplað sig út í þrjá mánuði. Í orlofinu hafi hann styrkst í þeirri trú sinni að rétt væri að láta staðar numið. Kaupendur Nútímans eru eigendur vefmiðilsins SKE.is. Atli Fannar vísar á nýja eigendur þegar hann er spurður hvað verði um Nútímann. „Það eru miklir möguleikar fyrir nýja og öfluga eigendur,“ segir hann. 

Þungur rekstur

Atli Fannar segir aðspurður að hann Nútíminn hafi verið sjálfbær í rekstri. Hann hafi ekki lagt rekstrinum til krónu og að útgáfufélagið skuldi lítið. Spurður hvort reksturinn hafi verið þungur svarar Atli Fannar því til að allir sem prófað hafi að reka fjölmiðil viti að rekstrarumhverfið sé mjög erfitt, ekki síst fyrir vefmiðil enda séu auglýsingaborðar ódýr vara. 

„Þetta tókst oft mjög vel en hefði líka stundum mátt takast betur. Okkur tókst stundum að vera fyrst með fréttirnar — allskonar fréttir. Við sögðum fyrst frá því að Hanna Birna væri að fara að segja af sér á sínum tíma og líka að Beyoncé væri á leiðinni til landsins. Við reyndum líka að koma stórum málum á framfæri á einfaldan hátt í gegnum örskýringar. Á tímabili framleiddi enginn vefur fleiri myndbönd en Nútíminn. En þetta var jafn gaman og þetta var erfitt og þessi stöðuga krafa um mikla aðsókn og miklar tekjur varð lýjandi,“ viðurkennir hann og bætir við að þessir tveir þættir haldist ekki alltaf í hendur. 

„Menn geta búið til mikla aðsókn en það er alltaf erfitt að búa til miklar tekjur. Nú treysti ég því að nýir eigendur finni gullna meðalveginn í þeim efnum.“ 

Engar uppsagnir

Atli Fannar er eini starfsmaður Nútímans í septembermánuði og hann segist þess vegna ekki hafa þurft að segja neinum upp. Þeir starfsmenn sem komið hafi tímabundið til liðs við Nútímann í sumar, í hans fjarveru, hafi lokið störfum. Þá snúi tökumaðurinn sér að öðrum verkefnum.

Atli Fannar var um tíma aðstoðarmaður Guðmundar Steingrímssonar, þáverandi formanns Bjartrar framtíðar, auk þess að vera framkvæmdastjóri flokksins fyrir Alþingiskosningar 2013. Hann hefur að þeim störfum frátöldum starfað við fjölmiðla í meira en áratug. Hann segir það ekki komið á hreint hvað taki við en segir þó að það skýrist vonandi á næstu dögum. Spurður hvort hann verði áfram á vettvangi fjölmiðla svarar hann því til að það komi í ljós.

Nútíminn vakti athygli víða um heim þegar hann sýndi raunveruleikaþættina Keeping up with the Kattarshians, þar sem fylgst var með kettlingum í beinni útsendingu allan sólarhringinn. Spurður hvort þeir þættir hafi verið hápunktur ferils hans hjá Nútímanum svarar Atli því hlæjandi til að það kunni vel að vera. 

„Það var einn af hápunktunum. Alveg hiklaust. Ég fékk allavega ekki tækifæri til að tala um annað efni í beinni útsendingu á Sky í Bretlandi. En svo var líka alltaf gaman að gera myndbönd sem slógu í gegn. Eftirminnilegasta myndbandið var Gerðiþaðekki-lagið. Það var eitt af því best heppnaða. Ég reyndar lít á það sem fréttaskýringu frekar en grínlag. Það sem stendur upp úr er samt allt fólkið sem ég kynntist og starfaði með í tengslum við Nútímann — þar mætti segja að ég hafi cashað út milljarðinum mínum,“ segir Atli Fannar.