Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir yfirvöld vera undir það búin að Íslendingar komi heim í aðdraganda jólanna og að fjöldi farþega á Keflavíkurflugvelli muni aukast í kringum jólin. Gerðar hafi verið sérstakar áætlanir og tvö sóttvarnahús reiðubúin.

Víðir bendir á að 18. desember sé síðasti dagurinn fyrir komu til Íslands ætli fólk að losna við að vera í sóttkví um hátíðarnar. Þetta sagði Víðir á blaðamannafundi almannavarna í gær.

Icelandair greindi frá því í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér að stefnt væri að því að fjölga áfangastöðum og flugferðum yfir hátíðarnar.

Jólaáætlun Icelandair er komin í sölu en áætlað er að fljúga til og frá ellefu áfangastöðum yfir jól og áramót. Flogið verður til og frá Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Amsterdam, London, París, Frankfurt og Berlín. Þá verða Boston, New York og Seattle áfangastaðirnir í flugi til og frá Norður-Ameríku.