„Þetta er eins og með gamla fólkið sem er svipt fjár­ræði og sjálf­ræði,“ segir Inga Sæ­land, odd­viti Flokks fólksins, um mál Jóhannesar Sigur­jóns­sonar blaða­manns.

Jóhannes á að ó­breyttu yfir höfði sér að missa elli­líf­eyri frá Trygginga­stofnun, megin­tekjur sínar, þar sem hann hefur dvalið meira en 180 daga á spítala. Frétta­blaðið fjallaði um mál hans í gær.

Reglurnar um þetta eru ó­rétt­látar að sögn Stefáns Ólafs­sonar, sér­fræðings í líf­eyris­málum. Ef Jóhannes væri efna­meiri yrði hann ekki fyrir skerðingu ráð­stöfunar­tekna, sem stangast á við sjúkra­trygginga­rétt.

At­laga að sjálf­ræði

Inga segir að það sé ekki eins og að fólk á spítala þurfi ekki að halda á­fram að greiða sín gjöld þótt það liggi á spítala. Þarna virðist henni sem at­laga sé gerð að sjálf­ræði Jóhannesar. „Allt í einu á að taka af honum af­komuna af því að hann er veikur á sjúkra­húsi,“ segir Inga.

Málið sé eitt dæmi af mörgum sem sanni að skera þurfi al­manna­trygginga­kerfið upp saman­ber fjölda frum­varpa sem hún hafi lagt fram, en að­eins brot gengið eftir.