Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri fékk sjö tilkynningar um sex tilvik kynferðislegrar áreitni og kynferðislegs ofbeldis af hálfu Atla Rafns Sigurðssonar leikara. Þetta kom fram í skýrslu Kristínar við aðalmeðferð máls sem Atli hefur höfðað gegn leikhúsinu.

Atli Rafn stefndi Kristínu og Leikfélagi Reykjavíkur eftir að hafa verið sagt upp störfum í kjölfar #metoo umræðunnar svonefndu. Atli var þá í ársleyfi hjá Þjóðleikhúsinu til þess að taka að sér verkefni hjá Borgarleikhúsinu. Hann fer fram á að fá tíu milljónir í skaðabætur og þrjár milljónir í miskabætur.

Kristín sagði við aðalmeðferðina í morgun að tilkynningarnar hafi annars vegar komið beint til hennar og hins vegar í gegnum trúnaðarmann starfsmanna.

„Ég kom algjörlega af fjöllum enda hafði ég aldrei fengið slíkar kvartanir áður,” sagði Atli Rafn í sinni skýrslu, aðspurður um fund sinn með leikhússtjóra og framkvæmdastjóra Borgarleikhússins í desember 2017.

„Ég vaknaði svo upp við vondan draum þegar ég las lygasögu um sjálfa mig í Stundinni,“ sagði Atli.
Fréttablaðið/Ernir

Hann sagði þær hafa komið sér strax að efninu, dregið upp plagg, og sagt að þeim hafi á undanförnum tveimur vikum borist upplýsingar um kynferðislegt áreiti af hans hálfu og að honum væri sagt upp, og dreginn strax út úr öllum verkefnum. Atli nefndi að á þeim tímapunkti hafi verið hálfur mánuður í frumsýningu verksins Medeu þar sem hann var í stóru hlutverki.

„Ég hef aldrei verið jafn hissa á ævinni,” sagði Atli í lýsingu sinni á fundinum með Kristínu þegar honum var sagt upp. Hann sagðist hafa þráspurt um þessar tilkynningar en engin svör fengið – hvorki fyrr né siðar. Hann hefði hvorki fengið upplýsingar um uppruna kvartananna, eðli þeirra né fjölda þeirra.

Eins og þær ættu von einhverju allt öðru

Atli sagði ljóst að leikhússtjóranum hafi brugðið við hversu afdráttarlaus viðbrögð hans voru. Hann sagðist hafa gert þeim grein fyrir hversu alvarlegar afleiðingar þetta hefði fyrir hann; þjóðþekktan mann í samfélaginu. Það yrði alger sprengja í samfélaginu og bransanum eins og raunin varð. Hann sagði leikhússstjóranum og framkvæmdastjóranum augljóslega brugðið við viðbrögð hans.

„Það var eins og þær ættu von á að þeim mætti iðrandi syndari,“ sagði Atli.

Hann sagði Kristínu hafa lýst því hversu erfitt sér þætti þetta. Hún hefði ítrekað verið að því komin kasta upp þennan morgun.

Þær hafi svo gert hlé á fundinum til að eiga símtal við ráðgjafa sinn en komu svo inn aftur og sögðu að ákvörðin þyrfti því miður að standa.

Lýsti deginum örlagaríka
Atli lýsti restinni af þessum örlagaríka degi. Hann hefði farið á aðventutónleika með eiginkonu sinni og syni. Þar sem hann hafi setið í Hörpu hefði hann fyrst áttað sig á því að hann væri orðið valdlaust rekald í eigin lífi.  Þegar heim var komið hefði hann strax sett sig í samband við lögmann og svo farið að reyna að afla sér upplýsinga um hvaðan tilkynningarnar hefðu mögulega geta komið og hefði síðan þá mikið reynt til að komast að því hver rótin að þessu væri.

Atli lýsti upplifun sinni af Metoo byltingunni í samfélaginu og innan leikhússins og greindi frá fundi í leikhúsinu þar sem konur frá Stígamótum hefðu verið með erindi. Í því hefði þeirri áherslu verið lýst að nú væri tími þolenda runninn upp og ekki mætti vefengja frásagnir þeirra. Eftir á að hyggja, virtist Kristín hafa gert þetta að Manifestói í starfi sínu“ sagði Atli og sagði að síðan hafi fjöldi Metoo frásagna verið birtar í Stundinni.

„Ég vaknaði svo upp við vondan draum þegar ég las lygasögu um sjálfan mig í Stundinni,“ sagði Atli.

Atli Rafn sagði Kristínu Eysteinsdóttur hafa þótt þetta erfitt, og ítrekað verið að því komin að kasta upp.

Sagður hafa verið blindfullur og rekið tunguna upp í samstarfskonu

Hann sagði söguna koma frá stúlku sem hann lék á móti í bíómynd á árinu 2017. Í umræddri senu lék hann á móti tveimur ungum stúlkum í ‚kampavínssenu‘. Leikstjórinn hefði viljað hafa raunverulegt kampavín. Önnur stúlkan hefði lýst áfengisvanda sínum og hafi hún fengið sódavatn í stað kampavíns.  Samkvæmt sögunni hafi hann verið blindfullur og rekið upp í hana tunguna. Þetta væri uppspuni frá rótum. Fullmannað tökulið hefði verið á staðnum.

Atli sagðist hafa rætt málið strax við bæði leikstjóra og framleiðanda myndarinnar. Þeir brugðust ólíkt við; leikstjórinn hefði helst vilja stefna stúlkunni fyrir meiðyrði en framleiðandinn hefði ekki viljað bregðast við, þetta myndi líða hjá.

Atli sagðist hafa spurt Kristínu hvort þessi Metoo frásögn væri rótin að uppsögninni en hún hafi sagt svo ekki vera.

Aðspurður sagði Atli að umrædd stúlka starfaði sem tæknimaður í leikhúsinu og faðir hennar væri listamaður í leikhúsinu, mjög handgenginn leikhússtjóra.

Faðir stúlkunnar „áhrifavaldur innan leikhússins“
Atli sagðist sannfærður um að þetta atriði í kvikmyndinni og hennar upplifun af því hefði verið aflvaki og haft áhrif á að honum var sagt upp. Faðir hennar væri áhrifavaldur innan leikhússins. Frá því atvikið varð hafi hann ekki yrt á sig í leikhúsinu og framkoma hans þannig að jaðraði við einelti.

Atli lýsti áhrifum málsins á líf sitt og fjölskyldu sinnar. Hann hafi lengi dreymt þetta á hverri nóttu og hafi orðið hlé á stöðugum hugsunum um þetta hafi aðrir orðið til að ræða þetta við hann, fjölskyldumeðlimir, vinir og jafnvel ókunnugt fólk í kælinum í Bónus.

Hann sagði sjálfstraust sinn sem leikara hafa verið lagt í rúst og þegar hann hafi komið aftur til starfa í Þjóðleikhúsinu hefði farið mikil orka í að byggja upp nægilegt sjálfstraust til að geta staðið á leiksviði og horfst í augu við áhorfendur.

Sjálfstraustið í rúst
Hann hafi ákveðið með konu sinni að dvelja erlendis stóran hluta ársins 2018 til að komast í burtu frá þessu. Hann sagði sjálfstraust sinn sem leikara hafa verið lagt í rúst og þegar hann hafi komið aftur til starfa í Þjóðleikhúsinu hefði farið mikil orka í að byggja upp nægilegt sjálfstraust til að geta staðið á leiksviði og horfst í augu við áhorfendur.

Hann sagði tekjur sínar hafa hrunið enda hefði hann misst þau störf sem hann hefði haft til hliðar við fasta stöðu sína í Þjóðleikhúsinu.

Samningi hans til fjölda ára um leiklestur á auglýsingum fyrir Krónuna hefði verið sagt upp. Enginn á Íslandi hefði viljað vinna með sér. Hann hafi fengið eitt verkefni á árinu 2018; frá útlendum aðila. Tekjurnar á árinu 2018 fyrir utan föst laun í Þjóðleikhúsinu hefðu verið 170 þúsund krónur.

„Mér ber auðvitað skylda til að tryggja öruggt vinnuumhverfi,“ sagði Kristín.
Fréttablaðið/Ernir

Í skýrslu Kristínar kom fram að hún hefði verið beðin um trúnað við tilkynnendurna og henni væri skylt að virða það eins og Persónuvernd hefði staðfest.

Hún segir þá sem tilkynntu um atvikin hefðu lýst miklum ótta, vanlíðan og kvíða fyrir því að mæta í vinnuna en fjórir af sjö störfuðu í leikhúsinu á umræddum tíma. Þeir hefðu lýst kvíða vegna nærveru Atla og lýst hræðslu gagnvart því að vinna með honum.

„Mér ber auðvitað skylda til að tryggja öruggt vinnuumhverfi,“ sagði Kristín og kvaðst upphaflega hafa ætlað sér að eiga starfsmannaviðtal við Atla en meðan það hafi verið í undirbúningi hafi fleiri tilkynningar farið að koma, sem myndað hafi þessa heildarmynd og það hafi auðvitað verið hún sem hún hafi verið að bregðast við, auk nauðsynlegra viðbragða við líðan umrædds starfsfólks.