Þór­dís Elva Þor­valds­dóttir furðar sig á bóta­greiðslum til handa Atla Rafni Sigurðar­syni, leikara, sem honum voru dæmdar í dag eftir að hann stefndi Borgar­leik­húsinu eftir að honum var sagt upp vegna á­sakana um kyn­ferðis­lega á­reitni.

Líkt og Frétta­blaðið greindi fyrst frá var niður­staða Héraðs­dóms Reykja­víkur sem greint var frá í há­deginu í dag sú að Borgar­leik­húsinu og Kristínu Ey­steins­dóttur leik­hús­stjóra ber að greiða Atla 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón króna í máls­kostnað. Atla Rafn var sagt upp í kjöl­far á­sakana á hendur honum um kyn­ferðis­lega á­reitni.

Segir rétt leik­kvennanna virðast engan

„Ég þekki leik­konur sem voru neyddar til að leika í gaman­sýningum með dáið barn í maganum og brostið hjarta, og hættunni á að það færi að sturtu­blæða í miðri sýningu, en þær fengu ekki frí til að syrgja og láta skafa út fóstrið,“ skrifar Þór­dís í færslu á Face­book vegna frétta af greiðslum til Atla.

Hún segist þekkja leik­konur sem hafi verið reknar úr hlut­verkum sínum því þær hafi fitnað, því rödd þeirra hafi farið í taugarnar á ein­hverjum, „eða af því bara.“

„Ég þekki leik­konur sem voru látnar leika á sviði við hlið manna sem káfuðu á kyn­færum þeirra, jafn­vel eftir að þær sögðu frá því. Ég þekki leik­konur sem voru reknar rétt fyrir frum­sýningu því þær voru 'of vel undir­búnar' og það ógnaði egói leik­stjórans. Réttur þeirra var, að því er virtist, enginn,“ skrifar Þór­dís.

Segir heildar­myndina ramm­skakka

„Svo kemst stjórnandi að því að fjórar starfs­konur eru hræddar við einn og sama leikarann, því í sjö mis­munandi til­vikum hafi konum fundist mörkum sínum vera mis­boðið af hans hálfu, að þeirra sögn. Maðurinn er látinn fara. Nú eru honum dæmdar hærri bætur en nokkur nauðgunar­brota­þoli í sögu landsins hefur fengið,“ skrifar Þór­dís.

„Hærri en 17 ára stúlkan sem var haldið fanginni og nauðgað heila helgi. Hærri en allir hóp­nauðgunar­þol­endur Ís­lands, líka þær sem smituðust af ó­læknandi sjúk­dómi við of­beldið. Hærri en allir sem hafa verið mis­notaðir og sviptir æsku sinni. Burt­séð frá sekt eða sak­leysi ein­stakra manna er þessi heildar­mynd rammskökk.“