Í skýrslum yfirkjörstjórna í kjördæmunum sex, sem skilað var inn til landskjörstjórnar í vikunni, má sjá þegar deilt er um atkvæði. Það getur verið af ýmsum ástæðum sem atkvæði er dæmt ógilt, eins og krot, punktar, rauð pennastrik og nánast allt þar á milli.

Atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi suður féll til Viðreisnar sem metið var ógilt, þar sem vilji kjósanda var ekki skýr. Reiturinn við listann var skyggður en þó mátti hugsanlega greina kross en óvíst hvort vilji kjósanda stóð til að kjósa Viðreisn eða hætta við. Umboðsmenn allra flokka kíktu á atkvæðið og töldu vilja kjósanda koma skýrt fram þar sem ungt fólk lærir að fylla út reiti með þessum hætti í skóla.

Þeir skólastjórnendur sem Fréttablaðið ræddi við í gær könnuðust ekki við þessar skýringar og flestir sögðu að ungir kjósendur kunni vel að gera einfalt X í kjörklefanum. Þó hafi þurft að fylla svona út í reiti í krossaprófum í Háskólanum þar sem vélar lesa niðurstöðurnar. Í Reykjavíkurkjördæmi norður voru þrjú atkvæði skyggð með þessum hætti. Yfirkjörstjórn mat þau ógild en umboðsmenn flokkanna mátu þau góð og gild.

Í Hafnarfirði voru tvö atkvæði dæmd ógild klukkan þrjú að nóttu. Fimm strik sáust á fyrri kjörseðlinum en á þeim síðari var rauður litur í ferning á listabókstaf. Hafnfirðingar skiluðu sinni fundargerð handskrifaðri og skriftin er á stundum svo óskiljanleg að enga leið er að lesa hvað gerðist.

Á Akureyri reyndust 22 atkvææði ógild, ýmist vegna þess að fólk hafði kosið tvisvar, kosið á kjörfundi, fylgigögn vantaði eða viðkomandi var hreinlega ekki á kjörskrá í kjördæminu. Eitt atkvæði þar sem kjósandi hafði fyllt reitinn fyrir framan J með rauðum lit var dæmt ógilt. Engir aðrir hnökrar voru á seðlinum segir í andmælum. „Að dæma ógilt þar eð rauður penni er notaður í stað blýants er ómálefnalegt því að hræðsla við Covid getur ýtt fólki til þess að nota eigin skriffæri,“ segir í andmælum Jóhanns Ólafs umboðsmanns Sósíalistaflokksins. Hann bendir ennfremur á að kjósendur Sósíalistaflokksins hafi verið hvattir til að skila rauðu sem væri hægt að skilja bókstaflega.

Hjá yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis voru fimm vafaatkvæði tekin úr talningu. Engar athugasemdir voru gerðar við niðurstöðu yfirkjörstjórnar. Þó er bent á að í Vestmannaeyjum var frágangur lélegur. „Nokkur óreiða var á kjörgögnum og voru nokkur hundruð ónotaðir kjörseðlar í poka sem hafði verið settur utan um kjörkassa. Þá vantaði lykil að kjörkassa. Frágangur þessi er aðfinnsluverður,“ segir í bókun yfirkjörstjórnar og ætlar hún að koma athugasemdum á framfæri við kjörstjórn í Vestmannaeyjum.

Hjá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis fjölgaði atkvæðum um tvö vegna innsláttarvillu í lok fyrri talningar eins og frægt er og hefur verið fjallað svo ítarlega um.