Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi alþingismaður, sendi lögreglunni á Vesturlandi nýjar ábendingar á þriðjudag í kjölfar kæru sinnar vegna endurtalningar í alþingiskosningunum í Norðvesturkjördæmi.

Karl Gauti segir ábendingar sínar í fyrsta lagi snúa að meðhöndlun atkvæða á talningarstað áður en fundur yfirkjörstjórnar hófst klukkan 13.00 á sunnudeginum. Þá átti að endurtelja atkvæði í kjördæminu.

„Samkvæmt heimildum voru þeir sem mættu í talningarsal fyrir klukkan 13.00 búnir að meðhöndla atkvæðabunka í salnum fyrir fundinn. Bendi ég lögreglu á að þessar staðhæfingar þurfi skilyrðislaust að kanna og upplýsa í minnstu smáatriðum,“ segir Karl Gauti. Fleira þurfi að kanna, eins og hvar í salnum atkvæðin hafi verið geymd – bæði afgangsseðlar, notuð atkvæði, ógild og önnur.

Í öðru lagi kveðst Karl Gauti benda á gerðarbók yfirkjörstjórnarinnar og ritun fundargerða yfirkjörstjórnarinnar. Varðandi það vakni fjölmargar spurningar, til dæmis hvað varði vöntun á undirritunum í gerðarbókina, sérstaklega í ljósi þess að heimildir séu um að einhverjir kjörstjórnarmenn hafi neitað að undirrita fundargerð þennan dag.

„Einnig berast fréttir af meintum ágreiningi innan kjörstjórnarinnar um endurtalninguna og þá er eðlilegt að sú spurning vakni af hverju sá ágreiningur kemur ekki fram í bókunum yfirkjörstjórnarinnar,“ segir Karl Gauti. Einnig veki athygli að engar bókanir, hvorki frá umboðsmönnum né einstökum kjörstjórnarmönnum, sé að finna í fundargerðinni.

Karl Gauti undirstrikar að talning atkvæða fylgi lögbundnu ferli sem sé skýrt afmarkað með fjölmörgum ákvæðum í kosningalögum.

„Fyrir liggur að fjölmörg þessara ákvæða voru ekki virt af hálfu yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis. Hæst ber áskilnað um að kjörgögn skuli ávallt innsigluð og ákvæði um skipun umboðsmanna framboða í talningu, en síðartalda atriðið taldi Hæstiréttur alvarlegan annmarka á framkvæmd talningar í dómi sínum 2011 um kjör til stjórnlagaþings. Ég á von á að lögregla upplýsi betur atburðarásina, svo unnt verði að sjá nákvæmlega hvernig þetta fór allt saman fram,“ segir Karl Gauti Hjaltason.

Eins og fram hefur komið hefur lögreglan á Vesturlandi lokið rannsókn sinni vegna kæru Karls Gauta og sent málið áfram til ákærusviðs embættisins til ákvörðunar um næstu skref.

Fundað var í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis í gær. Engar gestakomur voru á fundinn en nefndin hefur óskað eftir upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi um rannsókn hennar á talningunni í Norðvesturkjördæmi, meðal annars um upptökur úr eftirlitsmyndavél á Hótel Borgarnesi þar sem talningin fór fram. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins liggur ekki fyrir hvort lögregla mun veita nefndinni upplýsingar úr rannsókninni, eða hvort nefndin þurfi að afla sömu upplýsinga sjálf.

Samkvæmt nýsamþykktum verklagsreglum nefndarinnar mun hún almennt afla upplýsinga skriflega, en slík upplýsingaöflun getur samkvæmt reglunum meðal annars falið í sér beiðni til kjörstjórna og annarra opinberra aðila um tiltekin gögn, eða svör við tilteknum spurningum.

Karl Gauti Hja.jpg

Karl Gauti Hjaltason