Stéttarfélagið Efling hafnar því sem það kallar „þvingunaraðgerðir ríkissáttasemjara gegn samningsrétti félagsfólks“ eftir að ríkissáttasemjari setti fram miðlunartillögu sem sætta átti deilur Eflingar og Samtaka Atvinnulífsins. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stéttarfélagið sendi frá sér fyrr í kvöld.

Til stóð að atkvæðagreiðsla færi fram á morgun meðal félagsmanna Eflingar um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Hætt hefur þó verið við kosninguna þar sem stéttafélagið neitar að afhenda kjörskrá sína og hefur ríkissáttasemjari leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna þess. Gera má ráð fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur muni taka málið fyrir í næstu viku.

„Efling mun standa gegn lögbrotum og átroðslu embættis ríkissáttasemjara af fullum þunga, og verja samningsrétt verkafólks,“ segir í tilkynningunni og býr stéttafélagið sig nú undir málaferli.

Stefna enn á verkfall

„Við höfnum þessari þvingunaraðgerð og við ætlum að verjast þessar átroðslu ríkissáttasemjara,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í samtali við Fréttablaðið og segir stéttafélagið enn stefna á verkfallsaðgerðir gegn Íslandshótelum.

Kosningu um þær muni ljúka á mánudagskvöld. „Á mánudagskvöld mun samninganefnd Eflingar einnig hittast til þess að taka stöðuna og ræða frekari aðgerðir,“ segir Sólveig Anna.

Efling hefur gagnrýnt tillögu ríkissáttasemjara harðlega og telur hana ólögmæta þar sem ráðgast eigi við deiluaðila áður en miðlunartillaga er lögð fram. Ríkissáttasemjari hefur varið ákvörðun sína og segir hana standast lög.

Í tilkynningu Eflingar segir: „Samkvæmt 27. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur 80/1938 ber ríkissáttasemjara að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber upp miðlunartillögu. Í 28. gr. er kveðið á um rétt deiluaðila til að koma á framfæri athugasemdum. Á fundi með formanni og starfsmönnum samninganefndar Eflingar síðastliðinn fimmtudagsmorgun afhenti Aðalsteinn Leifsson þeim tilbúna miðlunartillögu, og hafði þá þegar boðað til blaðamannafundar sem fara átti fram kl. 11. Aðalsteinn ætlaði sér aldrei að bjóða til samráðs við Eflingu eða gefa félaginu tækifæri til athugasemda, sem er lögbrot auk þess að afhjúpa að um er að ræða hlutdræga og einhliða þvingunaraðgerð.“

VR gerir athugasemdir

Stjórn VR sendi einnig frá sér ályktun í kvöld þar sem hún gerir „alvarlegar athugasemdir við inngrip ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins.“

Í ályktun VR kemur einnig fram að stjórnin telji miðlunartillögu ríkissáttasemjara ótímabæra og hafi „slegið verkfallsvopnið úr höndum stéttarfélags sem hefur þegar hafið atkvæðagreiðslu um boðun aðgerða.“

Þá skorar stjórn VR á ríkissáttasemjara að draga tillögu sína til baka.

BHM, BSRB og Kennara­sam­band Ís­lands lýstu því svo í dag að miðlunar­til­lagan setti hættu­legt for­dæmi.