Ríkissáttasemjari hefur opnað upplýsingavef um miðlunartillöguna í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á vef sínum.
Þar má finna upplýsingar um tillöguna á sex tungumálum en til stóð að hefja atkvæðagreiðslu um hana í dag en henni var frestað þar sem Efling neitar að skila inn kjörskrá.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna málsins og má gera ráð fyrir því að það verði tekið upp í næstu viku.
Miðlunartillaga Aðalsteins hefur verið harðlega gagnrýnd og telja margir hana hafa verið ótímabæra á þessum tímapunkti enda hafi deilan ekki staðið yfir í langan tíma.
Telja margir því nauðsynlegt að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort ákvörðun ríkissáttasemjara sé á rökum reist á þessum tímapunkti í viðræðunum og í anda laganna.
Á vef ríkissáttasemjara kemur fram að atkvæðagreiðslan um tillöguna hefjist þegar kjörgögn berast frá Eflingu. Á vefnum er reiknivél þar sem félagsmenn Eflingar geta mátað sig inn í og fengið upplýsingar um hvaða launahækkanir felast í miðlunartillögunni og hvaða afturvirku hækkanir koma til að lágmarki, verði tillagan samþykkt.
„Ef miðlunartillaga ríkissáttasemjara verður samþykkt í atkvæðagreiðslu félagsfólks Eflingar og Samtaka atvinnulífsins þá fá félagar í Eflingu sömu launahækkanir og í samningi annarra félaga Starfsgreinasambandsins. Launahækkanirnar verða afturvirkar frá 1. nóvember 2022,“ segir jafnframt á vef sátta.