Tvær konur á sextugsaldri létust af sárum sínum eftir árás í sænskum skóla í gærkvöldi. Átján ára maður hefur verið handtekinn grunaður um að hafa myrt konurnar. Atvikið átti sér stað í Malmö í Svíþjóð.
Konurnar tvær voru starfsmenn skólans en strákurinn var nemandi. Um fimmtíu manns voru í eða við skólann þegar árásin átti sér stað, samkvæmt lögreglunni í Malmö. Fjöldi nemenda var í skólanum að æfa söngleik.
Tilkynningar um árásina bárust lögreglu skömmu eftir klukkan fimm á mánudagskvöldið. Lögregla lét tæma skólann og leitaði að árásarmanninum í skólanum. Sá grunaði var handtekinn skömmu eftir að lögregla mætti á vettvang, samkvæmt frétt SVT.

Samkvæmt frétt Aftonbladet var sá grunaði vopnaður öxi og hníf og er talinn hafa sjálfur hringt á neyðarlínuna eftir árásina. „Ég sit á þriðju hæð og ég hef lagt niður vopn mín og ég er búinn að myrða tvær manneskjur,“ er hann sagður hafa sagt í símtalinu.
Eftir að árásin átti sér stað hlupu margir út úr skólanum en aðrir leituðu skjóls í skólastofum. Konurnar tvær voru fluttar á spítala þar sem þær létust af sárum sínum.
Ekki er enn vitað hvað lá að baki árásinni. Heimildir Aftonbladet herma að maðurinn hafi hegðað sér undarlega í allan vetur og að kennarar höfðu áhyggjur af því að eitthvað myndi ske.
