Tvær konur á sex­tugs­aldri létust af sárum sínum eftir árás í sænskum skóla í gær­kvöldi. Á­tján ára maður hefur verið hand­tekinn grunaður um að hafa myrt konurnar. At­vikið átti sér stað í Mal­mö í Sví­þjóð.

Konurnar tvær voru starfs­menn skólans en strákurinn var nemandi. Um fimm­tíu manns voru í eða við skólann þegar á­rásin átti sér stað, sam­kvæmt lög­reglunni í Mal­mö. Fjöldi nem­enda var í skólanum að æfa söng­leik.

Til­kynningar um á­rásina bárust lög­reglu skömmu eftir klukkan fimm á mánu­dags­kvöldið. Lög­regla lét tæma skólann og leitaði að á­rásar­manninum í skólanum. Sá grunaði var hand­tekinn skömmu eftir að lög­regla mætti á vett­vang, sam­kvæmt frétt SVT.

Lögregla leitar fullbúin að árásarmanninum innan skólans.
Fréttablaðið/EPA

Sam­kvæmt frétt Afton­bladet var sá grunaði vopnaður öxi og hníf og er talinn hafa sjálfur hringt á neyðar­línuna eftir á­rásina. „Ég sit á þriðju hæð og ég hef lagt niður vopn mín og ég er búinn að myrða tvær mann­eskjur,“ er hann sagður hafa sagt í sím­talinu.

Eftir að á­rásin átti sér stað hlupu margir út úr skólanum en aðrir leituðu skjóls í skóla­stofum. Konurnar tvær voru fluttar á spítala þar sem þær létust af sárum sínum.

Ekki er enn vitað hvað lá að baki á­rásinni. Heimildir Afton­bladet herma að maðurinn hafi hegðað sér undar­lega í allan vetur og að kennarar höfðu á­hyggjur af því að eitt­hvað myndi ske.

Mikill viðbúnaður var við skólann eftir árásina.
Fréttablaðið/EPA