Átján ára íslensk stúlka er týnd á Spáni. Faðir stúlkunnar, Ingi Karl Sigríðarson, og kona hans, Guðbjörg Gunnlaugsdóttir, hafa tilkynnt hvarfið til lögreglunnar á Spáni, auk þess sem þau hafa verið í sambandi við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins á Íslandi vegna hvarfsins. Fyrst var greint frá málinu á vef DV í kvöld.

„Telma er ekki enn fundin. Hún sást síðast ganga út af Villajosa spítala á Spáni klukkan hálf sex í morgun. Það er verið að leita að henni og við erum búin að hafa samband við utanríkisráðuneytið, lögregluna á svæðinu og vini hennar,“ segir Ingi Karl í samtali við Fréttablaðið í kvöld.

Hann segir að þegar hún fór út af spítalanum hafi hún skilið alla sína persónulega muni eftir þar og segir að þau skilji ekki hvers vegna hún gerði það.

Lýst hefur verið eftir Telmu Líf á Spáni.
Mynd/Aðsend

Bjó ein á Benidorm

Ingi Karl segir að Telma hafi nýverið verið flutt frá þeim til Benidorm en hann býr með konunni sinni í bænum Callosa sem er skammt frá Benidorm en Telma var farin að búa ein í Benidorm. Fjölskyldan hefur búið á Spáni í um tvö ár. Ingi Karl segir að Telma tali einhverja spænsku, þýsku og sé reiprennandi í ensku.

„Við vitum ekki hvað gerðist, hvort hún var tekin eða hvort hún gekk út sjálf. Ef hún gerði það þá vitum við ekki af hverju hún gerði það,“ segir Guðbjörg.

Ingi Karl segir að þau viti vel hvað Telma gerði í gær og þar til um kvöldið en svo viti þau minna um hvað gerðist í gærkvöldi eða hvað gerðist svo sem varð til þess að hún fór af spítalanum.

„Við vitum að hún fannst á Benidorm og vegna þess að hún er 18 ára var ekki haft samband við okkur, heldur farið með hana á spítalann. Svo hringir spítalinn þegar þau fundu dótið hennar með miða með símanúmerinu mínu,“ segir Ingi Karl og að það hafi verið um 11 í dag.

Fóru beint til lögreglunnar

Hann segir að hann hafi farið beint til lögreglunnar með þetta því í dótinu hafi verið síminn hennar, veskið hennar og allir hennar persónulegir munir.

Guðbjörg segir að lögreglan hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur og hafi fengið mynd af Telmu og hafi auglýst eftir henni.

„Eins og er þá er hún týndur fullorðinn einstaklingur,“ segir Ingi Karl en að eftir tvo daga sé hægt að lýsa betur eftir henni en vonast að sjálfsögðu eftir því að þess muni ekki þurfa.

Að sögn Sveins Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er málið komið á borð borgaraþjónustunnar.