Átjan ár eru liðin frá því að fjórum farþegaþotum var rænt á flugi yfir austurströnd Bandaríkjanna, tveimur þeirra flogið á tvíburaturnana í New York, einni flogið á Pentagon, byggingu varnarmálaráðuneytisins í Arlington-sýslu í Virginíu og ein hrapaði í Somerset-sýslu í Pennsylvaníu eftir átök um borð milli farþega og flugliða við hryðjuverkamennina. Tæplega þrjú þúsund manns létust.

„Allt breyttist og þetta var varan­leg breyting, engin spurning,“ segir Ás­geir í sam­tali við Frétta­blaðið í dag, 18 árum síðar.

Forsíða Fréttablaðsins þann 12. september 2001, daginn eftir hryðjuverkaárásina.

Var í þinghúsinu þegar bílsprengjan sprakk fyrir utan

Ásgeir Sigfússon býr enn þann dag í dag í Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna. Fréttablaðið tók viðtal við hann árið 2001 en hann var í þinghúsinu í Washington þegar árásirnar voru gerðar á Pentagon og þinghúsið. Ásgeir var þá í námi við Georgetown háskóla og vann hjá stofnuninni American Foreign Services Association, sem er staðsett handan götunnar frá utanríkisráðuneytinu. Hann vinnur enn í dag hjá sama fyrirtæki og er samskiptastjóri og framkvæmdastjóri.

„Þegar maður fer í flugvél, þá er maður minntur á þennan dag í hvert skipti.“

Fréttablaðið heyrði í honum aftur í dag, 18 árum eftir árásina. Hann segir að samfélagið hafi gjörbreyst eftir árásina og að margt í hans hversdagslega lífi minni hann á daginn.

Ásgeir segist hafa upplifað mikla ringulreið og var hann í hálfgerðu sjokki næstu daga. Hann segir að árásirnar hafi ekki haft nein varanlega áhrif á hann persónulega, en þó hafi samfélagið í kringum hann breyst algjörlega.

„Þessi dagur er hluti af hversdagsleikanum. Í neðanjarðarlestinni heyrir maður tilkynningar sem maður heyrði ekki áður, maður labbar um og allar opinberar byggingar eru girtar af. Þegar maður fer í flugvél, þá er maður minntur á þennan dag í hvert skipti. Allt breyttist og þetta var varanleg breyting, engin spurning,“ segir Ásgeir.

„Við vorum á leiðinni út úr byggingunni þegar við heyrðum mikla sprengingu,“ sagði Ásgeir árið 2001.
Einni farþegaþotu var flogið á Pentagon, byggingu varnarmálaráðuneytisins í Arlington-sýslu í Virginíu.
Fréttablaðið/Getty Images

Eins og að vera í stríðsmynd og komast ekki út úr henni

Athafnamaðurinn og rithöfundurinn Ólafur Jóhann Ólafsson og Anna Ólafsdóttir kona hans höfðu átt heima í New York í 12 ár þegar árásin á tvíburaturnana átti sér stað.

Ólafur Jóhann hafði verið að fylgja sonum sínum, 6 og 8 ára, í skólann fyrsta skóladaginn og var í leigubíl á leiðinni í vinnuna þegar fyrri flugvélin skall á norðurturninn.

„Ég horfi á þessar byggingar út um gluggann hjá mér," sagði Ólafur Jóhann en skrifstofa hans var talsvert ofan við World Trade Center og heimili þeirra hjóna enn ofar á Manhattan. „Þetta er nánast súrrealískt," sagði hann og lýsti ástandinu eins og að vera kominn inn í stríðsmynd og komast ekki út úr henni aftur.

„Ég var uppi á þaki hjá mér áðan og herflugvélar og þyrlur sveima hér yfir," sagði Ólafur.

Ólafur býr enn í New York ásamt konu sinni og börnum og er hann aðstoðarforstjóri hjá Time Warner

„Ég var uppi á þaki hjá mér áðan og herflugvélar og þyrlur sveima hér yfir."
Fréttablaðið

Ég sá ekkert óeðlilegt þar til vélin skall á turninum

Hrafn Óli Sigurðsson varð vitni að báðum árekstrunum á tvíburaturnana. Hrafn er sérfræðingur í geðhjúkrun og hefur verið búsettur í New York meira og minna undanfarin 30 ár. Hann ræddi við Fréttablaðið þann örlagaríka dag fyrir 18 árum.

„Þetta er ótrúlega skrýtið að þessar tvær byggingar sem eru útsýnið mitt og maður lítur á sem bjargfastan veruleika, skuli vera rústir einar.“

„Ég sat í mestu rólegheitum, horfði út um gluggann og hugsaði um vinnuna þegar ég sá flugvélina svífa í rólegheitum yfir borginni," sagði Hrafn í viðtali við Fréttablaðið sem birtist 12. september 2001, daginn eftir hryðjuverkaárásina.

„Ég horfði á vélina og ekkert virtist óeðlilegt, þar til hún flaug bara beint á bygginguna. Síðan sat ég límdur við gluggann og ekki löngu síðar skall sú seinni á hinum turninum. Það voru gríðarlegar sprengingar og allt á öðrum endanum."

Hrafn Óli bjó á 14. hæð um 3 kílómetra frá World Trade Center og blasti byggingin frá stofuglugganum.

„Þetta er ótrúlega skrýtið að þessar tvær byggingar sem eru útsýnið mitt og maður lítur á sem bjargfastan veruleika, skuli vera rústir einar. Þótt liðnir séu margir klukkutímar frá því að þær hrundu er reyk og rykmökkur yfir allri Suður-Manhattan."

Hrafn starfar nú í ráðgafahóp fyrir vímuefnamisnotkun meðal sjúklinga sem leggjast inn á hand- og lyflækningadeildir á einu af borgarsjúkrahúsunum í New York, auk þess sem hann rak eigin stofu í 10 ár. Hrafn Óli er giftur Dr. David N. Ekstrom og á tvo uppkomna syni, þá Gunna Inga og Stefán Odd, og er nýlega orðinn afi.

„Það voru gríðarlegar sprengingar og allt á öðrum endanum."
Fréttaljósmyndirnar sem birtust eftir hryðjuverkaárásina voru vægast sagt sláandi.
Fréttablaðið/Getty Images