Frumkvæðisathugun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á hæfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, í ljósi stöðu hans gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja, hefur verið hætt.

Meiri hluti nefndarinnar ákvað fyrir helgi að klára málið með bókun en einnig var samþykkt að óska úrskurðar forseta Alþingis um hvernig ljúka megi frumkvæðisathugunum þingnefnda.

Ágreiningur er milli nefndarmanna um hvernig ljúka skuli málinu en minni hluti telur málið ekki fullrannsakað.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og framsögumaður málsins segir í bókun sinni að tilgangslaust sé að ræða málið frekar.

Kristján Þór var eins og flestir vita stjórnarformaður Samherja og er vinur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra og eiganda Samherja. Eftir Samherjaskjölin ákvað nefndin að rannsaka hvort ráðherra hefði á embættistíma sínum tekið ákvarðanir sem hann var ekki hæfur til að taka vegna tengsla hans við útgerðina.

Í þætti Kveiks í fyrra um Samherjamálið kom fram að ráðherrann hefði hitt namibísku hákarlana svokölluðu þegar þeir fóru á fund með Samherjamönnum. Hann hefur sagt það algjöra tilviljun að hann hafi verið á skrifstofu Samherja á sama tíma og þessir menn.

Þá vakti mikla athygli að ráðherrann hafi hringt í Þorstein Má eftir að fjallað var um viðskipta Samherja í Namibíu: „Ég var bara að spyrja hvernig honum liði ein­fald­lega,“ sagði hann.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri útgerðarfyrirtækisins Samherja.

Ósætti meðal nefndarmanna frá byrjun

Nefndin hefur fjallað um málið frá því í desember í fyrra þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður nefndarinnar, lagði til að hefja frumkvæðisathugun á hæfi ráðherra. Meiri hluti nefndarinnnar var á móti slíkri frumkvæðisathugun frá byrjun en einungis þarf fjóðung nefndarmanna til að samþykkja slíka tillögu. Með atkvæðum Andrésar Inga Jónssonar, Guðmundar Andra Thorssonar og Þórhildar Sunnu, var tillagan samþykkt.

Áður en gengið var til atkvæða vildi Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að óskað yrði upplýsinga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti um hvort reynt hafi á yfirlýsingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hæfi sitt frá 2017 áður en ákveðið yrði að hefja frumkvæðisathugun. Því hafnaði formaður nefndarinnar.

„Formaður nýtur ekki míns trausts.“

Á sama fundi lagði Andrés Ingi Jóns­son, ó­háður þing­maður, til að Þór­hildur Sunna yrði fram­sögu­maður málsins. Meiri­ hlutinn hafnaði því og lagði þá Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, til að Líneik Anna Sæ­vars­dóttir, þing­maður Fram­sóknar­flokksins, yrði fram­sögu­maður. Óskaði þá Líneik eftir að hlé yrði gert á fundi.

Meiri hluti nefndarinnnar var á móti því að hefja frumkvæðisathugun á hæfi ráðherra. Nefndarmenn voru ekki sammála um hver ætti svo að leiða athugunina. Minni hluti vildi Þórhildi Sunnu og meiri hluti vildi Líneik Önnu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Að loknu örstuttu hléi á fundi var gengið til atkvæða um tillögu Brynjars og var hún samþykkt með atkvæðum Brynjars sjálfs, Líneikar Önnu, Óla Björns, Kolbeins Óttarssonar Proppé, Vinstri grænum, og Þórarins Inga Péturssonar, Framsóknarflokki.

Þorsteinn Sæmundsson greiddi ekki atkvæði en lagði fram bókun að málsmeðferð innan nefndarinnar undanfarna daga hefðu valdið honum vonbrigðum. „Formaður nýtur ekki míns trausts,“ skrifaði Þorsteinn.

Mánuði eftir að nefndin ákvað að taka fyrir málið birtu Píratar eftirfarandi myndband á Facebook að útskýra hvers vegna nefndin væri að rannsaka tengsl ráðherrans við Samherja og möguleg áhrif þess á vinnu hans.

Taldi svörin ekki fullnægjandi

Þann 16. desember sendi nefndin, að tillögu Líneikar Önnu, upplýsingabeiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis með afriti á forsætisráðuneytið þar sem óskað var upplýsinga um hvort og með hvaða hætti hefði reynt á hæfi ráðherra í málum tengdum Samherja og tengdum félögum, hvaða verkferlar og verklag væri við líði við mat á hæfi ráðherra og hvaða lagaákvæði liggi til grundvallar slíku mati.

Í greinargerð ráðuneytisins frá 17. janúar 2020 er meðal annars vísað til Facebook færslu ráðherrans þar sem segir: „Ég tel mig hæfan til þess að taka ákvarðanir um málefni sem snerta sjávarútveginn á Íslandi í heild sinni. Komi upp mál sem snerta Samherja sérstaklega mun ég að sjálfsögðu meta hæfi mitt í ljósti framangreinds líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála.“

Þá er í greinargerðinni vísað til þess að ráðherra eigi engra hagsmuna að gæta gagnvart Samherja og eigi engin tengsl við það önnur en að hafa um áratugaskeið þekkt einn aðaleiganda félagsins, þáverandi forstjóra þess. Því væri það mat ráðherra að þau tengsl yllu ekki vanhæfi hans í málum sem ekki varði mikilsverða hagsmuni. Í því felist að starfsmenn ráðuneytisins væru hæfir til afgreiðslu stjórnvaldsúrskurða sem beindust að félaginu.

Tvö skráð úrskurðarmál tengdust Samherja

Svo er vísað til þeirra mála sem skráð voru í málaskrá ráðuneytisins á starfstíma ríkisstjórnarinnar og tengdust Samherja. Tvö úrskurðarmál fundust: Stjórnsýslukærur til ráðuneytisins vegna ákvarðana fiskistofu. Annars vegar vegna áminningar sem fiskiskipi var veitt fyrir að sækja ekki um leyfi til að veiða í lögsögu annars ríkis og hins vegar áminningu fiskistofu vegna nokkra kílóa af tindaskötu sem ekki hafði skilað sér á hafnarvog eða í aflaskráningarkerfi Fiskistofu.

Ráðuneytið felldi úr gildi tvær áminningar til Samherja. Til vinstri: Vegna skipsins Kristínar, sem vanrækt hafði að sækja um 3 leyfí til veiða í lögsögu annars ríkis. Til hægri: Vegna fiskiskipsins Bjargar sem skráði ekki nokkur kíló af tindaskötu.

Með úrskurðum ráðuneytisins voru ákvarðanir Fiskistofu felldar úr gildi. Um þær segir í greinargerð ráðuneytisins:

„Afgreiðsla þessara mála, sem ekki voru talin veigamikil, var í samræmi við venjubundna framkvæmd ráðuneytisins í sambærilegum málum. Hvorki ráðherra né ráðuneytisstjóra var því gert kunnugt um að mál þessi væru til meðferðar í ráðuneytinu.“

Tæpri viku eftir að greinargerð ráðuneytisins var send nefndinni voru ráðherra og ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu gestir nefndarinnar á opnum fundi. Nefndin hélt opinn fund með ráðherranum þann 22. janúar en Þórhildur Sunna sagði á sínum tíma að svörin hafi ekki reynst fullnægjandi.

Óskuðu eftir frekari upplýsingum

Þann 4. mars síðastliðinn ræddi nefndin um hæfi ráðherrans á ný. Á þeim fundi ákváðu Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Andri Thorsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að senda upplýsingabeiðni til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ráðuneytið svaraði flestum fyrirspurnum með því að vísa í svör ráðherra á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hinn 22. janúar. Svör ráðuneytisins við fyrispurnum minni hluta nefndarinnar má sjá hér.

Þann 4. júní síðastliðinn komu svo gestir fyrir nefndina sem voru sérfræðingar í stjórnsýslurétti.

Meiri hlutinn telur frekari könnun tilgangslausa

„Ég tel frekari könnun tilgangslausa og tel ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa frumkvæðisathugun innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“

Meiri hlutinn komst að þeirri niðurstöðu nú fyrir helgi að ekki væri tilefni til frekari umfjöllunar. Í bókun Líneikar segir:

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra. Samkvæmt lögum metur ráðherra hæfi sitt sjálfur og ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag á því mati hafi farið í bága við lög og reglur. Ég tel frekari könnun tilgangslausa og tel ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa frumkvæðisathugun innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar,“ segir í bókun Líneikar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins og Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins tóku öll undir bókunina.

„Afstaða meiri hlutans ber merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minni hlutans á þingi, ýtir undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirðir sérstakt eftirlitshlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og er til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því.“

Ýti undir grunsemdir um leyndarhyggju

Þórhildur Sunna lagði fram gagnbókun, sem þingmennirnir Guðjón Brjánsson og Andrés Ingi Jónsson tóku undir. Í bókuninni segir Þórhildur Sunna rétt minni hlutans, um að hefja frumkvæðisathugun, sérstaklega mikilvægan „í ljósi þess að alla jafnan beinast frumkvæðisathuganir að verklagi og ákvörðunum ráðherra sem sitja í skjóli meiri hluta þings.“

Minni hluti nefndarinnar telur málið ekki fullrannsakað og hefur óskað eftir frekari gestakomum og að aflað verði frekari gagna í málinu. Þórhildur segir afstöðu meiri hlutans bera merki um vanvirðingu fyrir réttindum og hlutverki minni hlutans á þingi, ýti undir grunsemdir um samtryggingu og leyndarhyggju, lítilsvirði sérstakt eftirlishlutverk nefndarinnar og sé til þess fallin að veikja Alþingi og traust almennings á því.

„Ágreiningur er því um framhald málsins á milli þess hluta nefndarmanna sem óskaði eftir frumkvæðisathuguninni og meiri hlutans sem frá upphafi var mótfallinn því að þessi athugun færi fram. Þann ágreining mætti gera út um á tvennan máta. Leggist meiri hlutinn gegn frekari gestakomum gæti hann lagt til að afgreiða málið frá nefndinni með skýrslu til Alþingis þar sem mætti skýra frá helstu sjónarmiðum til stuðnings afstöðu nefndarmanna til málsins. Önnur nálgun til þess að leysa úr þessum ágreiningi væri að fela framsögu málsins nefndarmanni sem telur ástæðu til frekari skoðunar á því. Meiri hlutinn hefur lagst gegn báðum þessum leiðum.“

Lagði aftur til að Þórhildur Sunna stýrði málinu

Í fundargerð kemur fram að eftir að afstaða meiri hlutans lá fyrir lagði Andrés Ingi í annað sinn til að Þórhildur Sunna yrði gerð að framsögumanni málsins. Gengið var til atkvæða um þá tillögu og var hún felld með sex atkvæðum gegn þremur.

Undir lok fundar var ákveðið að óska eftir úrskurði frá forseta þingsins um hvernig ljúka megi frumkvæðisathugugunum nefnda, en ljóst er af fundargerðum um umrætt mál að minni hluti nefndarinnar er ósáttur við að meiri hlutinn geti lokið máli án samráðs við þá sem eiga frumkvæði að því að mál séu tekin til skoðunar.

Minni hluti nefndarinnar taldi afstöðu meiri hlutans lítilvirða sérstakt eftirlitshlutverk nefndarinnar.