Fríða Björk Ingvars­dóttir, rektor Lista­há­skólans, segir alla flokka vel­komna í sam­tal við nem­endur í skólanum, svo fremi sem þeir trufla ekki. Á­stæða þess að Sjálf­stæðis­menn fengu ekki að gefa ham­borgara á skóla­lóðinni segir Fríða að sé vegna þess að um sé að ræða gjafir og borist hafi at­huga­semdir vegna málsins.

Greint var frá því í gær að Lista­há­skóli Ís­lands hefði af­þakkað boð Sjálf­stæðis­flokksins um að gefa ham­borgara á bíla­stæði skólans. Flokkurinn hefuru undan­farna daga gefið ham­borgara úr sér­merktum matar­vagni og titlað þá sem frelsisborgara, enda kosningabarátta í fullum gangi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Fríða Björk, sem er rektor skólans, vildi lítið láta hafa eftir sér í sam­tali við Frétta­blaðið um málið. „Það eru allir flokkar vel­komnir í sam­tal við nem­endur svo fremi sem þeir trufla ekki skóla­starfið, við áttum þetta sam­tal hérna innan­búðar hjá okkur fyrir þing­kosningarnar í haust og þá var þessi lína dregin,“ segir Fríða.

„Hins­vegar komu at­huga­semdir við það núna að það væri verið að gefa veitingar eða gjafir. Við tókum tillt til þeirra at­huga­semda,“ segir Fríða en spurð að því hvort at­huga­semdirnar hafi komið frá nem­endum segir hún að þær hafi komið úr ýmsum áttum.

Dreifing frírra borgara til nemenda í LHÍ í boði Sjálfstæðisflokksins vakti mikla athygli á samfélagsmiðlinum Twitter.
Fréttablaðið/Skjáskot