Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans, segir alla flokka velkomna í samtal við nemendur í skólanum, svo fremi sem þeir trufla ekki. Ástæða þess að Sjálfstæðismenn fengu ekki að gefa hamborgara á skólalóðinni segir Fríða að sé vegna þess að um sé að ræða gjafir og borist hafi athugasemdir vegna málsins.
Greint var frá því í gær að Listaháskóli Íslands hefði afþakkað boð Sjálfstæðisflokksins um að gefa hamborgara á bílastæði skólans. Flokkurinn hefuru undanfarna daga gefið hamborgara úr sérmerktum matarvagni og titlað þá sem frelsisborgara, enda kosningabarátta í fullum gangi í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
Fríða Björk, sem er rektor skólans, vildi lítið láta hafa eftir sér í samtali við Fréttablaðið um málið. „Það eru allir flokkar velkomnir í samtal við nemendur svo fremi sem þeir trufla ekki skólastarfið, við áttum þetta samtal hérna innanbúðar hjá okkur fyrir þingkosningarnar í haust og þá var þessi lína dregin,“ segir Fríða.
„Hinsvegar komu athugasemdir við það núna að það væri verið að gefa veitingar eða gjafir. Við tókum tillt til þeirra athugasemda,“ segir Fríða en spurð að því hvort athugasemdirnar hafi komið frá nemendum segir hún að þær hafi komið úr ýmsum áttum.
