Vegna yfirlýsingar sem Efling stéttarfélag sendi frá sér í gær í tilefni af frétt Fréttablaðsins um launakröfur aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins (SGS) vill blaðið taka fram að það stendur við frétt sína að öllu leyti. Útreikningar í fréttinni byggja á kröfugerð SGS sem Efling hefur haldið til streitu í viðræðum við SA.

Í umræddum útreikningum er, eins og skýrlega var tekið fram í fréttinni, miðað við regluleg heildarlaun nokkurra starfsstétta innan aðildarfélaga SGS miðað við samsetningu launaliða árið 2017.

Auk óbreytts fjölda greiddra yfirvinnutíma er gert ráð fyrir því að hlutfallið á milli reglulegra launa og grunnlauna haldist óbreytt og að hæsta aldursþrep verði hækkað úr fimm árum í sjö ár, í samræmi við kröfur Eflingar, sem gerir ráð fyrir tveggja prósenta bili á milli aldursþrepa.