Loftmyndir sýna gífurleg áhrif sprenginganna sem sprungu við hafnarsvæði Beirut, höfuðborg Líbanon, síðdegis í gær. Yfir hundrað eru látin og á fimmta þúsund slösuð eftir sprengingarnar.

Talið er að um 250 þúsund manns hafi misst heimili sín í sprengingunni en myndir sýna að heilu hverfin hafa verið lögð í rúst.

Mældist á jarðskjálftamælum

Sprengingarnar mældust 3,5 af Richter á jarðskjálftamælum og fundust högg­bylgjur þeirra alla leið til Kýpur, sem er í 240 kíló­metra fjar­lægð. Einnig mátti heyra í sprengingunni í allt að 80 kíló­metra fjar­lægð frá sprengju­svæðinu.

For­seti Líbanón, Michel Aoun, greindi frá því í gær að um 2.750 tonn af ammóníum-nít­rati, sem var geymt við óviðunandi aðstæður í vöru­skemmu við höfnina, hafi valdið sprengingunni. Ammóníum-nít­rat er meðal annars notað til á­búðar­fram­leiðslu og við námu­vinnslu en einnig í sprengju­gerð.