Kynslóðaskipti eru að verða í Hæstarétti Íslands en dómarar sem setið hafa lengi í réttinum hafa látið af embætti og aðrir komið í þeirra stað. Markús Sigurbjörnsson, sem gegnt hafði embætti hæstaréttardómara í aldarfjórðung, lét af embætti síðastliðið haust og á sama tíma Viðar Már Matthíasson eftir tæpan áratug. Í síðustu viku lét Helgi I. Jónsson af embætti eftir tæp átta ár í réttinum.

Tvær konur gegna nú embætti hæstaréttardómara og fjórir karlar. Skipað verður í sæti Helga á næstunni en sjö dómarar eiga að skipa Hæstarétt. Í umsögn dómnefndar um þá sem sóttust eftir hinu lausa embætti er Sigurður Tómas Magnússon, dómari við Landsrétt, metinn hæfastur umsækjenda.

Með tilkomu Landsréttar hefur hlutverk Hæstaréttar breyst umtalsvert. Landsréttur er eiginlegur áfrýjunardómstóll en Hæstiréttur veitir sjálfur áfrýjunarleyfi á grundvelli beiðna.

Lögum samkvæmt má Hæstiréttur veita áfrýjunarleyfi ef beiðnin lýtur að atriði sem hefur verulega almenna þýðingu eða af öðrum ástæðum er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni.

Sé um sakamál að ræða ber Hæstarétti að verða við ósk ákærða um áfrýjun hafi hann verið sýknaður í héraði en sakfelldur í Landsrétti, nema rétturinn telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.

Vegna þessa breytta hlutverks Hæstaréttar fækkar mjög málum sem tekin eru til meðferðar við réttinn og er markmiðið að dómarar við réttinn fái svigrúm til að kveða upp vandaða og fordæmisgefandi dóma sem veita um leið leiðbeiningu til neðri dómstiganna, en sem æðsti dómstóll landsins fer Hæstiréttur einnig með það hlutverk að skera úr um hvort sett lög og aðrar réttarreglur standist stjórnarskrá.

Miklir reynsluboltar

Það sem einkennir sitjandi dómara í Hæstarétti sérstaklega er gífurlega mikil dómarareynsla. Flestir dómaranna við réttinn höfðu áður starfað sem dómarar, ýmist við héraðsdóma eða Landsrétt, og einn þeirra hefur einnig reynslu af setu í alþjóðlegum dómstól. Aðeins einn dómaranna hefur mikla reynslu af lögmennsku, Karl Axelsson.

Þrír dómaranna hafa lokið framhaldsmenntun auk embættisprófs í lögum; Ingveldur Einarsdóttir, Þorgeir Örlygsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Tveir hafa gegnt stöðu prófessors í lögum, Þorgeir og Benedikt Bogason. Þeim gæti nú fjölgað um einn verði Sigurður Tómas skipaður við réttinn en hann hefur gegnt stöðu atvinnulífsprófessors við Háskólann í Reykjavík.

Hæstiréttur er vel skipaður þegar kemur að réttarfari; þeim formreglum sem gilda um meðferð mála fyrir dómi. Dómarar við réttinn hafa allir mikla dómarareynslu og hafa nokkrir sérþekkingu á sviði réttarfars. Þeir dómarar sem gegnt hafa stöðu prófessors hafa allir kennt réttarfar; þó einkum á sviði einkamála. Gréta Baldursdóttir hefur mikla reynslu af fullnusturéttarfari (reglur sem gilda um aðför, nauðungarsölur, gjaldþrot og fleira). Setjist Sigurður Tómas í Hæstarétt í stað Helga I. Jónssonar, eykst þekking réttarins á sakamálaréttarfari en hann hefur bæði kennt það fag við Háskólann í Reykjavík auk þess sem hann flutti ein stærstu sakamál Íslandssögunnar bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti; Baugsmálin. Hann hefur síðan þá einnig fengist við kennslu á sviði auðgunar- og efnahagsbrota.

Margir hafa lýst áhyggjum af kynjahalla í Hæstarétti
fréttablaðið/eyþór

Hæstiréttur á tvo sérfræðinga á því sviði sem hvað flest dómsmál varða; kröfurétti. Benedikt og Þorgeir hafa báðir gegnt prófessorsstöðu við Háskóla Íslands, kennt þar kröfurétt og gefið út fræðirit um efnið.

Þekking á sviði Evrópuréttar og alþjóðalaga er einnig ágæt en Þorgeir var dómari við EFTA-dómstólinn áður en hann settist í Hæstarétt auk þess sem hann hefur framhaldsmenntun á sviði þjóðaréttar og alþjóðlegs einkamálaréttar. Ólafur Börkur hefur einnig meistarapróf í Evrópurétti.

Athygli vekur hve margir dómaranna sjö hafa sérstaka reynslu af barnarétti (Ingveldur, Benedikt og Gréta). Þá er ótalin sérstök þekking Karls Axelssonar á sviði eigna- og jarðaréttar en hann hefur bæði fengist við kennslu á því sviði auk ráðgjafar við stjórnvöld og margra ára starf í óbyggðanefnd.

Meðal annarra sérsviða sem dómarar í Hæstarétti hafa starfað við eru veðréttur, hugverkaréttur, samkeppnisréttur, fjölmiðlaréttur og skiptaréttur.

Sérþekking horfið á braut

Meðal fræðimanna sem horfið hafa úr réttinum síðustu ár eru Viðar Már Matthíasson, sérfræðingur í skaðabótarétti, en á því sviði er Landsréttur ef til vill betur skipaður sem stendur, þar situr helsti fræðimaður landsins á þessu sviði, Eiríkur Jónsson, auk Jóhannesar Sigurðssonar, sem kenndi skaðabótarétt í áratugi.

Páll Hreinsson, einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði stjórnsýsluréttar, fékk lausn frá embætti hæstaréttardómara fyrir nokkrum árum en stjórnsýsluréttur er án efa meðal helstu fræðasviða sem koma til kasta æðsta dómstóls landsins. Þótt dýrmætt þekking hafi horfið á braut með Viðari og Páli bætir dómarareynsla sitjandi dómara við Landsrétt hana upp að einhverju leyti en auk þess hafa sumir dómaranna á starfsferli sínum gegnt störfum sem krefjast þekkingar á þessum sviðum. Tveir þeirra hafa starfað hjá Umboðsmanni Alþingis og var Þorgeir Örlygsson settur umboðsmaður í nokkrum málum skömmu fyrir aldamót.

Kynjahallinn áhyggjuefni

Tveir sitjandi hæstaréttardómara eru komnir á leyfilegan eftirlaunaaldur; Gréta og Þorgeir. Ætla má að Þorgeir hyggist sitja þann tíma sem hann á eftir í sæti forseta réttarins en hann verður 69 ára þegar því lýkur við lok næsta árs.

Margir hafa lýst áhyggjum af kynjahalla í Hæstarétti en áður en Ingveldur var skipuð dómari við réttinn nú um áramót hafði Gréta Baldursdóttir verið eina konan í réttinum um árabil.

„Að það séu einungis tvær konur í Hæstarétti Íslands á móti fimm körlum endurspeglar hvorki samfélagið né fjölda kvenna í lögfræðingastétt. Úr því þarf að bæta,“ segir Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélagsins. Formaður Dómarafélagsins bendir á að breytingar sem gerðar voru árið 2010 hafi þegar haft jákvæð áhrif.

„Eftir að reglum um hæfnismat á umsækjendum um dómaraembætti var breytt 2010 hefur kynjahallinn minnkað hratt í dómskerfinu. Sú þróun mun væntanlega líka birtast í Hæstarétti á næstu árum,“ segir Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélagsins.

Eftir að fleiri konur fóru að sækja laganám hefur þeim einnig fjölgað sem sækja um embætti hæstaréttardómara. Meðal þeirra sem sótt hafa um að undanförnu eru Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sem myndi auka umtalsvert á þekkingu réttarins á sviði refsiréttar og sakamálaréttarfars, Ása Ólafsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, sem lauk nýverið við ritun fræðirits á sviði samningaréttar, Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari hefur doktorspróf í lögum frá Edinborgarháskóla og hennar sérsvið er mannréttindi. Þá hefur Aðalheiður Jóhannsdóttir, doktor í umhverfis- og auðlindarétti og prófessor við Háskóla Íslands, einnig sótt um í Hæstarétti.

Sú kona sem þó er hvað oftast orðuð við Hæstarétt er Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti og mannréttindum við Háskóla Íslands. Hún hefur enn ekki sótt um embætti við réttinn en eiginmaður hennar, Markús Sigurbjörnsson, lét eins og fyrr segir nýverið af embætti eftir aldarfjórðungs setu í réttinum.