Ástþór Magnússon, athafnamaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hefur lýst yfir áhuga á að koma að stofnun nýs flugfélags í stað WOW Air. Hefur hann haft samband við fyrrverandi stjórnendur WOW Air og við hluthafi.com, sem Fréttablaðið hefur fjallað um í dag.

Þetta kemur fram í tölvupósti Ástþórs til Skúla Mogensen, stofnanda og fyrrverandi forstjóra WOW Air, og Svanhvítar Friðriksdóttur, fyrrverandi upplýsingafulltrúa WOW Air, en þann póst áframsendi hann á hið óstofnaða huldufélag hluthafi.com, sem síðan áframsendi póstinn á Fréttablaðið og aðra fjölmiðla.

Í bréfinu til Skúla og Svanhvítar segist Ástþór hafa áhuga á því að fjárfesta í WOW Air, ef enn væri ekki búið að finna fjárfesta fyrir 51 prósent hlut í félaginu. Pósturinn er dagsettur 27. mars snemma morguns, en eins og alkunnugt er varð flugfélagið tekið til gjaldþrotaskipta degi síðar.

Þann póst áframsendi hann svo á hluthafi.com, og lýsir sig viljugan til að aðstoða með rekstur og utanumhald Airbus-flugvéla, ef vel tekst til að koma nýju félagi á flot. „Við erum 4 félagar sem gætum hugsanlega komið að flugrekstar hlutanum, erum með flota af Airbus vélum og 3 flugrekstrarleyfi, og reglubundin flug í Evrópu og til Bandaríkjanna,“ skrifar Ástþór.

Hann segist hafa kannað þessi mál þegar WOW Air féll og segist þá hafa getað fengið 4 Airbus 321 farþegaþotur sem hægt væri að setja í verkefni með stuttum fyrirvara. „Mín hugmynd var að starfsmenn gamla Wowair myndu stofna nýtt WOWAIR sem myndi sjá um markaðsmál, sölu flugmiða og þjónustu við farþega. Ég og mínir félagar myndum stofna WOWCRAFT sem tæki að sér sjálfan flugreksturinn og legði til vélarnar. Þannig yrði kannski auðveldar að komast í gang aftur fyrir starfsfólk WOW með nýtt félag. Hins vegar komu engin viðbrögð frá Íslandi til að koma þessu í loftið,“ skrifar Ástþór áfram.

Í samtali við Fréttablaðinu segir Ástþór að hann hefði áhuga á því að koma að stofnun nýs flugfélags, en þætti betra að þeir sem standa fyrir hluthafa.com myndu koma fram undir nafni, en eins og Fréttablaðið greindi frá í dag hafa þau sem standa fyrir framtakinu ekki viljað segja til nafns þrátt fyrir fyrirspurn blaðsins.

Uppfært 20.02. Í kvöldfréttum RÚV var greint frá því að netafbrotadeild lögreglunnar muni taka heimasíðuna til skoðunar á morgun.